Í kjölfar einstaklega vel heppnaðrar frumsýningarinnar á Rústað eftir Söru Kane heldur Borgarleikhúsið áfram kynningu á verkum þessa magnaða leikskálds. Öll önnur verk hennar verða flutt í sviðsettum leiklestrum á Nýja sviðinu næstu fjórar vikurnar. Fjöldi leikara tekur þátt í verkefninu. Gagnrýnendur spara ekki stóru orðin um uppsetningu Kristínar Eysteinsdóttur á Rústað og aðdáendur Söru Kane eiga enn von á góðu. Næstu fjórar vikurnar verða önnur verk hennar flutt í sviðsettum leiklestrum á Nýja sviðinu. Leiklestraröðin hefst þann 10. febrúar á öðru verki Kane, Ást Fedru, síðan verða verkin leiklesin í tímaröð og endað á 4:48 geðtruflun þann 3. mars 2009.

Sarah Kane (1971-1999) olli straumhvörfum í leikritun strax með fyrsta leikriti sýnu Rústað (Blasted) sem frumsýnt var í Royal Court leikhúsinu í London 1995. Lundúnabúar stóðu agndofa. Þessi 24 ára stúlka kom eins og stormsveipur inn í leikhúsið og rústaði viðteknum hugmyndum um samtímaleikritun með vægðarlausum og beinskeyttum verkum sínum. Í hverjum leiklestri er einn leikstjóri fenginn til að stýra verkinu, hann fær eina viku til undirbúnings með leikurum og verður hver leiklestur fluttur aðeins einu sinni á þriðjudagskvöldunum í febrúarmánuði.

Ást Fedru – Leiklestur 10. febrúar kl 20:00
Þýðing: Örn Úlfar Höskuldsson
Leikstjóri: Hafliði Arngrímsson

Hreinsun – Leiklestur 17. febrúar kl 20:00
Þýðing: Hrafnhildur Hagalín
Umsjón: Leikhópurinn Vér morðingjar

Þrá – Leiklestur 24. febrúar kl 20:00
Þýðing: Hrafnhildur Hagalín
Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir

4:48 geðtruflun – Leiklestur 3. mars kl 20:00
Þýðing: Didda Jónsdóttir
Leikstjóri: Heiðar Sumarliðason

{mos_fb_discuss:2}