Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýnir laugardaginn 26. nóvember leikritið “Hin endanlega hamingja”. Höfundur og leikstjóri er Lárus Húnfjörð. “Hin endanlega hamingja” var unnin og skrifuð á æfingatímabilinu.
 
Freysteinn, andlegur leiðtogi Helgidóms hinnar endanlegu hamingju er horfinn á brott. Mun söfnuðurinn jafna sig á þessu áfalli? Tæklar Sigurmar nýja hlutverkið sem leiðtogi? Heldur Elínborg, ekkja Freysteins sönsum? Er Ingunn kona Sigurmars sátt við sitt hlutskipti?  Eru Herlaugur og Fjóla dóttir Freysteins trúlofuð eða ekki. Kemur tónlistarstjórinn Hallgerður Ugla til með að halda lagi? Þessum spurningum verður kannski svarað á samkomu í Helgidóminum. Þó getur hugsast að allt öðrum spurningum verði svarað.

Image 
“Hin endanlega hamingja” er annað verk Lárusar Húnfjörð sem Leikfélag Hafnarfjarðar tekur til sýninga. “Þið eruð hérna” sem félagið sýndi sumarið 2003 er af mörgum talið eitt athyglisverðasta verk sem hefur verið sýnt í promenade stíl hér á landi um árabil.
 
Leikendur í sýningunni eru 13 talsins. Margir þeirra eru að stíga sín fyrstu skref á fjölunum en aðrir hafa mikla reynslu að baki. Hönnun lýsingar er í höndum Kjartans Þórissonar, Kristín Arna Sigurðardóttir hannar leikmynd og Dýrleif Jónsdóttir hefur yfirumsjón með búningagerð. 

Þetta er fyrsta verkefni Leikfélags Hafnarfjarðar á þessu leikári. Leikritið verður sýnt í húsakynnum félagsins í gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði. Athugið að sýningin hentar ekki fyrir fólk með innilokunarkennd eða trúarbragðafælni.

Sýningar verða sem hér segir:

Laugardagur 26. nóvember: Frumsýning
Þriðjudagur 29. nóvember: 2. sýning
Föstudagur 2. desember: 3. sýning
Sunnudagur 4. desember: 4. sýning
Fimmtudagur 8. desember: 5. sýning
Laugardagur 10. desember: Lokasýning

Sími miðasölu er 848 0475 og 555 1850.