Sunnudaginn 31. október frumsýndi Leikfélag Sauðárkróks barna- og fjölskylduleikritið um eðaldrengina Jón Odd og Jón Bjarna eftir Guðrúnu Helgadóttur. Áætlaðar voru 8 sýningar og var uppselt á flestar þeirra svo nú hefur verið ákveðið að bæta tveimur sýningum við. Þessa góðu aðsókn má líklega að nokkru leyti rekja til þess að miðaverð var lækkað umtalsvert í tilefni þess að nú hefur Leikfélag Sauðárkróks sýnt barnaleikrit á haustin 10 ár í röð. Er miðaverð á sýninguna því einungis 1000 krónur.

Þá hefur foreldrafélag Árskóla niðurgreitt leikhúsmiða fyrir yngstu bekkina undanfarin ár, en ákvað í ár að 1., 2. og 3. bekkur skólans fengju frítt í leikhúsið! Í kjölfarið fylgdi svo starfsmannafélag Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki sem gefur sínum félögum líka miða á sýninguna. Þessir fjölmörgu boðsmiðar, ásamt skemmtilegri uppsetningu leikstjóranna tveggja Sigurlaugar Vordísar Eysteinsdóttur og Stefáns Friðriks Friðrikssonar og góðri vinnu leikhópsins alls, veldur því sum sé að nú hefur verið bætt við aukasýningum bæði á laugardaginn kl. 14 og fimmtudaginn kl. 16:30.

{mos_fb_discuss:2}