Sagan segir frá barni í pössun hjá afa sínum og ömmu í sumarbústað en þar er lítið við að vera og barninu leiðist. Í bústaðnum eru engin nútímatæki eins og tölvur og snjallsímar. Afinn og amman reyna að hafa ofan af fyrir barninu, en það gerist æ óþægara.
Glói gullfiskur, fiskifluga, könguló, draugur og fleiri koma við sögu en að lokum finnast bækur í bústaðnum og barnið kemst í ró. Verkið er ærslakennt og er tónlistin í anda verksins, létt og leikandi. Björt í sumarhúsi er einlæg og bráðskemmtileg fjölskyldusýning sem á ríkt erindi við íslensk börn í samtímanum.
Söngleikurinn var frumsýndur í Hörpu 1. febrúar og var framlag Töfrahurðar til tónlistarhátíðarinnar Myrkir músíkdagar. Aukasýningar í Tjarnarbíói hefjast 14. febrúar.
Björt í sumarhúsi er samstarfsverkefni Töfrahurðar og Óperarctic félagsins.