Björt í sumarhúsi er nýr íslenskur söngleikur fyrir börn á öllum aldri eftir Elínu Gunnlaugsdóttur og Þórarin Eldjárn. Textinn byggir á ljóðum úr bókinni „Gælur, fælur og þvælur“. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir, Kristina Berman gerir leikmynd og búninga. Næatu sýningar eru kl. 13.00 og 15.00 laugardaginn 14. febrúar.

Sagan segir frá barni í pössun hjá afa sínum og ömmu í sumarbústað en þar er lítið við að vera og barninu leiðist. Í bústaðnum eru engin nútímatæki eins og tölvur og snjallsímar. Afinn og amman reyna að hafa ofan af fyrir barninu, en það gerist æ óþægara.

Glói gullfiskur, fiskifluga, könguló, draugur og fleiri koma við sögu en að lokum finnast bækur í bústaðnum og barnið kemst í ró. Verkið er ærslakennt og er tónlistin í anda verksins, létt og leikandi. Björt í sumarhúsi er einlæg og bráðskemmtileg fjölskyldusýning sem á ríkt erindi við íslensk börn í samtímanum.

Söngleikurinn var frumsýndur í Hörpu 1. febrúar og var framlag Töfrahurðar til tónlistarhátíðarinnar Myrkir músíkdagar. Aukasýningar í Tjarnarbíói hefjast 14. febrúar.

Björt í sumarhúsi er samstarfsverkefni Töfrahurðar og Óperarctic félagsins.