Gagnvirka netleikhúsverkið Herbergi 408 var tilnefnt til verðlauna í Prix Europa, keppni evrópskra ljósvakamiðla í flokknum Nýir miðlar nú á haustdögum. Prix Europa eru virt verðlaun í Evrópu en að keppninni koma opinberar sjónvarps- og útvarpsstöðvar í Evrópu og er t.a.m. RÚV aðili að keppninni. Tilnefnd eru verk í mörgum flokkum bæði heimildaefnis og leikins efnis og bárust mörg hundruð verk frá 35 löndum í keppnina í ár. Hrafnhildur Hagalín og Steinunn Knútsdóttir höfundar verksins héldu til Berlínar í október þar sem keppnin fór fram til þess að kynna verkið fyrir dómnefnd.

Mikla athygli vakti að  Netleikhúsið Herbergi 408 var það eina sinnar tegundar í flokki nýmiðla og eru verkefnin þó af mjög ólíkum toga. Í flokknum voru  23 verk tilnefnd til verðlauna og hlaut Herbergi 408 áttunda sætið og annað sætið í kosningu þátttakenda í keppninni. Það verk sem bar sigur úr býtum var viðamikið vísindaverkefni BBC, Science Lab, verkefni sem var unnið í samstarfi við sjónvarpið og vísindastofnanir í landinu, verkefni þar sem möguleikar veraldarvefjarins voru nýttir til hins ítrasta.

Netleikhúsið er stolt af árangrinum og þakkar allan þann stuðning sem það hefur notið frá stofnun. Það er ljóst að Netleikhúsið er eina leikhúsið sinnar tegundar í Evrópu og hafa forsvarskonur orðið varar við  mikinn áhuga á starfsemi leikhússins erlendis.

{mos_fb_discuss:2}