Leikfélag Ölfuss
Stútungasaga
Leikstjóri Ármann Guðmundsson
Getur verið að í liði brennumanna við hefðbundna bæjarbrennu á Sturlungaöld hafi verið einn rómantískur blómálfur sem hugsaði um það eitt að finna fágætar jurtir sem uxu við bæinn Kaldakol meðan félagar hans brytjuðu niður menn, konur og börn? Stútungasaga sem fagnar á árinu 17 ára afmæli er vel gert ærsla og orðaleikjaverk sem gerist á Sturlungaöld. Verkið sem er ættað frá hinum frjóa og skemmtilega Hugleik hefur verið sett upp víðsvegar um land á liðnum árum og uppsetningin nú í Þorlákshöfn gæti verið sú tíunda án þess að nákvæm rannsókn liggi þar að baki.
Einn af höfundum verksins, Ármann Guðmundsson leikstýrði en auk hans lögðu þau Þorgeir Tryggvason, Sævar Sigurgeirsson og Hjördís Hjartardóttir hér hönd að og er gerð svofelld grein fyrir verkaskiptingu í leikskránni. Sævar sá um ofbeldið, Hjördís klámið, Þorgeir allt þetta væmna og Ármann þetta fyndna. Þetta er lýsing sem Þorgeir, nú fomaður Bandalags íslenskra leikfélaga, eignar Ármanni að hafa sett saman og kannski álíka nákvæmni þar og í sýn höfunda á þjóðháttum og venjum á Sturlungaöld.
Þannig sjá áhugamenn um miðaldabókmenntir glitta í tilvitnanir í Laxdælu, Njálu og fleiri perlur fyrri tíðar en allt rennur það mátulega saman við siði og venjur þess nútímafólks sem skreppur dagpart til Noregs og kemur með bjórkippu í poka með sér heim. Heiti á bæjum og hetjum eru skemmilegir útúrsnúningar á því groddalegasta sem við þekkjum úr eigin sögu, drápsvilji og kaldlyndi ýkt nokkuð og innan um allt sveima svo rómantískir draumar, drottning með brókarsótt, saurlífur biskup og ættlitlir höfðingjar sem eiga sér drauma um frama á Alþingi.
Verkið allt er um tveir tímar og hófst með tilkomumikilli bæjarbrennu sem ljósameistarar sýningarinnar Haukur Einarsson og Hjalti Stefán Kristjánsson eiga skilið hrós fyrir. Verkinu vindur svo hratt fram með örum skiptingum þar sem farið er milli bæjanna, Útistaða, Höfuðbóls, Útnára, Hrakhóla og Skálhóla.
Í heildina litið tókst uppsetning alls verksins vel og nokkrir leikendanna eiga skilið hrós fyrir góða frammistöðu. Þar er fyrstar að telja mæðgurnar á Hrakhólum, Þuríði Axarskaft (Ása Margrét Grétarsdóttir) og Kolfinnu (Árný Leifsdóttir), skapvarginn Jórunni frá Útnára (Hulda Gunnarsdóttir) og af karlkynsleikendum Klæng Kortsson biskup (Hilmar Jónsson), stórtenórinn (?) Þorbjörn Gíslason (Arnar Gísli Sæmundsson), Grana Þjóðálfsson (Jónas Höskuldsson), Haki Granason (Ragnar Óskarsson) og að síðustu aukaleikarann Gosa (Marteinn Óli Skarphéðinsson). Þá kemur sögukonan sem leikin er af Þrúði Sigurðar verki sínu vel til skila og gefur allri sýningunni skemmilegan blæ.
Mörg þessara eru að stíga ein sín fyrstu spor á leiksviði og ljóst að sum hafa hér talent sem lengi hefur óræktaður verið. Því fer þó fjarri að uppsetningin sé gallalaus og þeirra gætir einkum eftir hlé. Einstaka leikari tapaði lítillega einbeitingu og kannski má rekja það til reynsluleysis leikara að rennsli var á stöku stað stirt og títt er með ærslaleikrit af þessu tagi reynir mikið á hraða og hann hefði mátt vera meiri, sérstaklega vidí lokasenum. Samanborið vid upphafssöng og aðra söngva þá var þá var lokasöngurinn í verkinu aðeins endasleppur og hefði mátt vera kröfugri. En í heildina góð sýning, sviðsmynd lífleg, leikarar stóðu sig vel og gagnrýnandi fór heim fullur áhuga á að lesa sjálfa Sturlungu.
Leikendur: Róbert Karl Ingimundarson, Magnþóra Kristjánsdóttir, Ottó Rafn Halldórsson, Hallgrímur Erlendsson, Hulda Gunnarsdóttir, Katrín Jóna Kristinsdóttir, Snæfríður Sól Árnadóttir, Ásta Margrét Grétarsdóttir, Árný Leifsdóttir, Jónas Höskuldsson, Ragnar Óskarsson, Hilmar Jónsson, Ólöf Þóra Þorkelsdóttir, Berglind Sigurðardóttir, Arnar Gísli Sæmundsson, Júlíus Geir Halldórsson, Þórður Njálsson, Helena Helgadóttir, Marteinn Óli Skarphéðinsson, Skarphéðinn Haraldsson og síðast en ekki síst sögukona verksins og formaður Leikfélagsins, Þrúður Sigurðar.
{mos_fb_discuss:2}