Það var skemmtilegt að ganga í svalri kvöldgolunni upp göngustíginn í Öskjuhlíð og setjast síðan í grasið í einu af gömlu olíutankastæðum Breta úr seinni heimsstyrjöld. En það var ekki neinn stríðsógn í lofti heldur var leikfélagið Sýnir að kynna áhorfendum fyrir álfum og huldufólki með tveimur leikþáttum sem eiga uppruna sinn úr þjóðsögunum.

Á undan og á milli þáttanna ræddi Víðir Örn Jóakimsson um samskipti manna og álfa og ég er ekki frá því að hann sé svolítill álfur enda vakti hann kátínu meðal áhorfenda með brosi sínu og látbragði.

 

vakandimanns.gifFyrri þátturinn bar nafnið Og þann hefi ég sopa sætastann sopið undir leikstjórn Hrundar Ólafsdóttur og fjallar um ástir álfa og manna. Þetta var fallegur og harmrænn þáttur. Tónlist Helgu Ragnarsdóttur í upphafi verksins laðaði fram andrúmsloft dulúðar og spennu og hamraveggirnir í kring voru fullkominn leikmynd um verkið. Um margt hafði verkið yfir sér tsjekhovskan blæ og leikurinn var hófstilltur og naturalískur. Ég hefði kannski viljað sjá meiri ástríður hjá ungu elskendunum en allir leikendur stóðu sig þó vel og er gaman að sjá öll þessi nýju andlit hjá Sýni. Þetta verk var vel gert hjá leikhóp og leikstjóra og gaf manni áhugaverða innsýn í hin flóknu samskipti manna og álfa.

Seinni þátturinn sem heitir Hamar var af allt öðru sauðahúsi en fyrri þátturinn og minnti að mörgu leyti á Dario Fo eða commedia del´arte leikhús. Þarna var gert græskulaust gaman að samskiptum álfa og manna þar sem kynlíf og skelmisspaug ber hæst. Þetta var skemmtilegur þáttur og vel gerður hjá leikstjóranum Herði Skúla Daníelssyni og leikhópnum. Þótt að sumstaðar mætti sjá hnökra í leikstjórninni og vinnu með leikurum þá hurfu þeir í hraðri og fyndinni frásögn og einstaklega skemmtilegum leik Stefáns Bjarnasonar sem lék bóndasoninn af fítonskrafti. Eins voru álfkonurnar gröðu skemmtilega gróteskar í meðförum Heru Guðbrandsdóttur og Unu Dóru Þorbjörnsdóttur.

Búningar í báðum þáttunum voru fallegir og féllu vel að verkunum og eins var leikskrá vönduð og ítarleg.

Leikfélagið Sýnir hefur þá sérstöðu meðal leikfélaga á landinu að vera aðeins með starfsemi á sumrin og hefur mikið sótt krafta sína og endurnýjun í starfsemi Leiklistarskóla Bandalagsins. Félagið hefur ferðast víða um land með verk sín og um næstu helgi verða þau með þessi verk á Fiskideginum mikla á Dalvík og hvet ég fólk að gera sér ferð til að líta þessi verk augum. Það er fyllilega þess virði enda er þetta þriggja stjörnu sýning.

Lárus Vilhjálmsson
{mos_fb_discuss:2}