Það verða eflaust ófá hlátrasköllin sem munu hljóma þegar hjartnæmi heimilistækjasirkusinn Af ástum manns og hrærivélar verður frumsýndur fimmtudaginn 20. maí í Kassanum, litla sviði Þjóðleikhússins. Það eru þau Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Kristján Ingimarsson sem leika sambýlisfólkið Söru og Guðjón. Augasteinninn í lífi þeirra er Nilfisk ryksuga.
Á meðal hversdagslegra uppákoma í lífi þessa undursamlega sambýlisfólks má nefna:
Tugþraut í tengiflugi
Nilfisk sjónhverfingar
Hrærivélasamdrættir
Flögrandi forréttir
Samhæfður klútadans
Leikritið er eftir fjórmenningana Ilmi Stefánsdóttur, Kristján Ingimarsson, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur og Val Frey Einarsson. Valur er jafnframt leikstjóri og Ilmur hannar sviðsmynd og búninga. Það er engu logið þegar sagt er að einstakur húmor, færni og hugmyndaflug hafa verið einkennismerki listafólksins sem kemur að þessu verki og ekki dregur það úr gleðinni að Davíð Þór Jónsson er höfundur tónlistar og hljóðmyndar – spilar á steypuhrærivél, potta, pönnur, Nilfisk ryksugur og önnur helstu heimilistæki.
{mos_fb_discuss:2}