Meðal þeirra hugmynda sem ræddar voru til að létta á fjárhag Bandalagsins var að leikfélögin keyptu tiltekin fjölda eintaka sögu Bandalagsins, Allt fyrir andann, á 2.000 kr. og væru þar með slegnar tvær flugur í einu höggi því jafnframt mundi þetta losa rými á þjónustumiðstöðinni sem ekki er vanþörf á. Skráðu leikfélögin á þinginu sig fyrir 90 eintökum af bókinn og eru öll aðildarfélög hvött til að kaupa nokkur eintök. Einnig voru ræddar hugmyndir eins og að hækka álögur á vörum í verslun og á ljósritunargjaldi og að leyta að fjárhagslegum stuðningi frá einkaaðilum. Var einhugur á fundinum um að forðast í lengstu lög að skera niður starfsemi þjónustumiðstöðvar þó svo að það virðist nánast óumflýjanlegt ef ekki finnst lausn á fjárhagsvandanum.
Fundurinn samþykkti tvær ályktanir sem Þorgeir Tryggvason, formaður Bandalagsins setti saman, annars vegar áskorun til yfirvalda um meta starf áhugaleikhúshreyfingarinnar að verðleikum og láta það endurspeglast í styrkjum til hennar og hins vegar áskorun á aðildarfélög Bandalagsins að vera duglegri við að senda fulltrúa á aðalfund þar sem þar væru jafnan teknar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á starfsemi leikfélaganna. Aðeins 16 af 63 aðildarfélögum Bandalagsins áttu fulltrúa á fundinum.
Samþykkt var sú breyting á reglum um úthlutun styrkja að frá og með næsta leikári þarf staðfesting frá höfundarréttarhafa, um að leyfi fyrir sýningunni hafi verið veitt, að fylgja umsókn um styrk. Stjórn Bandalagsins lagði þetta til þar sem ekki þykir forsvaranlegt að styrkja með opinberu fé sýningar sem ekki hafa fengið tilskilin leyfi og samþykkti fundurinn tillöguna einróma. Jafnframt var ákveðið, að tillögu stjórnar, að hækka árgjald til Bandalagsins úr 50.000 kr. í 60.000 kr.
Fram kom á fundinum að höfundagreiðslur hafa ekki hækkað frá árinu 2003 þegar samningur um þær var undirritaður en þær hefðu átt að hækka í samræmi við vísitölu. Því verður umtalsverð hækkun á þeim frá og með 1. júní nk. og mun gjaldið þá verða 10.094 á sýningu fyrir verk yfir 90 mínútur eða 80.752 kr. miðað við átta sýningar sem er lágmarksgreiðsla. Greiðslur fyrir styttri sýningar og þýðendalaun hækka til samræmis við þetta.
Þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu Bandalagsins verður ekki betur séð en leiklistin vaxi og dafni í landinu. Ekkert bendir til að uppsetningar séu færri þetta leikár en undanfarin ár og ekkert félag sagði sig úr Bandalaginu á leikárinu. Hins vegar gengu þrjú félög í Bandalagið á ný, Leikfélag Austur-Eyfellinga, Leikfélag Bolungarvíkur og Leikfélag Flateyrar.
{mos_fb_discuss:3}