Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í nítjánda sinn. Alls sóttu ellefu leikfélög um með jafn margar sýningar. Það var afar ánægjulegt að skoða þessar fjölbreyttu sýningar, víðsvegar að af landinu og verða enn á ný vitni að því hversu góða rækt áhugaleikfélögin leggja við íslenska leikritun. Öll verkin voru eftir íslenska höfunda, og voru sjö þeirra frumsamin fyrir félögin en fjögur voru áður sýnd íslensk verk. Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2011-2012 sýningu Leikfélags Kópavogs á Hringnum.

Í dómnefnd í ár sátu Ari Matthíasson, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins, Jana María Guðmundsdóttir leikkona og Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins. Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri var formaður dómnefndar.

Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:

1. Leikfélagið Hugleikur sýndi leikritið Sá glataði eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í samvinnu við leikstjórann Ágústu Skúladóttur og leikhópinn. Hópurinn lagði á skemmtilegan hátt út af sögum úr Biblíunni og þar unnu saman leikstjórn, leikmynd, búningar, lýsing, tónlist og hljóðmynd á áhrifamikinn hátt.
2. Leikdeild Umf. Skallagríms sýndi Skugga-Svein eftir Matthías Jochumsson í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Hópurinn skilaði vel þessu klassíska verki, leikarar voru trúverðugir í hlutverkum sínum og mikið lagt í að búningar beri tíma sínum vitni.
3. Leikdeild Umf. Eflingar sýndi Í gegnum tíðina eftir Hörð Þór Benónýsson, sem jafnframt leikstýrði. Verkið er samið í kringum lög frá árunum 1950-1980 og leikhópurinn naut sín vel í leik og söng í þessari hugljúfu sýningu.
2012adalfundur34. Leikfélag Kópavogs sýndi Hringinn eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Harðar Sigurðarsonar. Hér var á ferðinni frumlegt og óvenjulegt nýtt verk sem leikhópurinn skilaði vel.
5. Leikfélag Reyðarfjarðar sýndi Baðstofuna eftir leikhópinn og Gunnar Ragnar Jónsson, sem jafnframt leikstýrði. Leikararnir skiluðu hlutverkum sínum af natni og gerðu sögunni góð skil. Þjóðlegur en dökkur rammi verksins féll vel að sögunni.
6. Leikfélag Vestmannaeyja sýndi Banastuð. Leikstjóri var Guðjón Þorsteinn Pálmarson, en hann er jafnframt höfundur leikgerðar þessa verks, sem byggir á bandarískum B-myndum. Leikgleði og kraftur einkenndu sýninguna, ungu leikararnir eru efnilegir og vægi tónlistar í sýningunni var skemmtilegt á móti frísklegri leikgerð leikstjórans.
7. Leikfélag Ölfuss sýndi Himnaríki eftir Árna Ibsen í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar. Uppfærslan var lifandi og skemmtileg, leikarar orkumiklir og fóru vel með vandasamt verk.
8. Leikfélagið Sýnir sýndi Tristram og Ísönd eftir Ármann Guðmundsson og Guðrúnu Sóleyju Sigurðardóttur, en Ármann leikstýrði. Riddarasöguformið var skemmtilega nýtt í þessari uppfærslu, orðleikni var áberandi og fallegir búningar ásamt listilegri fléttu leiks og tónlistar.
9. Litli leikklúbburinn, Ísafirði sýndi Dampskipið Ísland eftir Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri var Halldóra Rósa Björnsdóttir. Sýningin var vandvirknislega unnin af leikstjóra og leikhóp og vandað var til leikmyndar, búninga og lýsingar. Leikarar stóðu sig vel og sjónræn umgjörð var vel unnin.
10. Ungmennafélag Reykdæla sýndi Ekki trúa öllu sem þú heyrir eftir Bjartmar Hannesson. Leikstjóri var Þröstur Guðbjartsson. Hér var mest lagt upp úr hraða og skemmtun, leiklausnir voru einfaldar og skýrar og leikhópurinn kröftugur.
11. Ungmennafélagið Dagrenning sýndi Sölku Völku eftir Halldór Laxness í leikgerð Stefáns Baldurssonar og Þorsteins Gunnarssonar. Leikstjóri var Jakob S. Jónsson. Þessi viðamikla og mannmarga sýning var vönduð og gaman að sjá hvernig kraftar ólíkra kynslóða voru sameinaðir.

Umsögn dómnefndar um Hringinn:
Leikfélag Kópavogs sýnir skemmtilega dirfsku í verkefnavali sínu en Hringurinn eftir Hrefnu Friðriksdóttur er óvenjulegt og frumlegt nýtt íslenskt leikrit. Leikstjórinn Hörður Sigurðarson og leikhópur blása svo lífi í þann lítt hversdagslega heim sem höfundur dregur upp mynd af í verki sínu. Við hverfum inn í furðuheim sirkussins þar sem spurningamerki eru sett við ýmsar viðteknar hugmyndir okkar og leggjum ásamt aðalpersónunni í ferð í leit að leyndarmálum fortíðar. Í meðförum Leikfélags Kópavogs verður þessi ferð full af spennu og ógnum, en jafnframt hugljúf og nostalgísk, meðal annars fyrir tilstilli tónlistar og myndbandsbrota sem sýna sirkuslífið í fortíðinni. Hinn sjónræni þáttur sýningarinnar er vel unninn og hugvitssamlegur og leikarar standa sig með prýði.

Þjóðleikhúsið óskar Leikfélagi Kópavogs til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna Hringinn í Þjóðleikhúsinu um miðjan júní.

{mos_fb_discuss:2}