Dagana 6.-13. júlí 2015 verður alþjóðleg leiklistarhátið áhugamanna haldin í Westouter í Belgíu. Hátíðin er haldin annað hvert ár víðsvegar um heiminn, sú síðasta var haldin í Monaco 2013. Hátíðin er á vegum Alþjóða áhugaleikhúsráðsins IATA/AITA. Til hennar er boðið leiksýningum alls staðar að út heiminum og lögð áhersla  á að allar heimsálfur eigi þar fulltrúa. Undirbúningur þessara hátíða tekur langan tíma og þess vegna þarf að tilkynna þátttöku með löngum fyrirvara.

Hér með er auglýst eftir umsóknum en allar upplýsingar um hátíðina, reglur hennar og markmið má finna á heimasíðu hennar http://www.spotsopwest.org/en/festival-2015

Valferlið er á þessa leið:
Byrjað er á að þau lönd sem hafa áhuga á þátttöku tilkynni það til hátíðahaldara. Það hefur þegar verið gert fyrir Íslands hönd.
Næst er að auglýsa eftir umsóknum frá aðildarfélögunum en val á sýningu þarf að hafa farið fram fyrir 1. október 2014 og allar upplýsingar um viðkomandi sýningu sendar til Belgíu. Sótt er um til skrifstofu Bandalagsins.
15. nóvember verður svo tilkynnt hvaða sýningar hljóta náð fyrir augum hátíðarhaldara.

Athugið að sýningarlengd má mest vera 45 min.