ImageÞriðjudaginn 16. maí heldur leikfélagið Hugleikur til Rússlands og tekur þátt í tveimur leiklistarhátíðum þar í landi í boði rússneska áhugaleikhússambandsins með sýninguna Undir hamrinum eftir Hildi Þórðardóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

Hugleikur hefur gert víðreist undanfarin ár með ýmsar sýningar og einatt hlotið mikið lof fyrir. Undir hamrinum var fulltrúi Íslands á Norður-evrópsku leiklistarhátíðinni í Eistlandi 2004 og var í framhaldinu valin á alþjóðlega leiklistarhátíð IATA/AITA, í Mónakó, en þar hrifust útsendarar rússneska bandalagsins af sýningunni og buðu henni austur.

Verkið var upphaflega sýnt af Hugleik árið 2003 og fjallar á gróteskan hátt um þekkt minni úr íslenskum þjóðsagna- og menningararfi. Í verkinu segir frá presti og vandræðum hans við að gifta dóttur sína ríkum en ógeðfelldum bónda, baráttu hinnar dóttur hans við að fá að bindast fátækum dreng af næsta koti, og stríði kotbóndans við prestinn um bithaga. Inn í verkið blandast svo ást gamallar fóstru prestdætranna á hinu forna Sætröllskvæði. Efnistök bæði höfundar og leikstjóra einkennast af stílfærðum ólíkindum sem miðla innihaldinu sterkt til erlendra leikhúsunnenda þó leikið sé á Íslensku. Sömu áhrif hefur tónlistin sem mikið er af í verkinu og að vanda frumsaminn af hugleiksmönnum, að þessu sinni Birni Thorarensen og Þorgeiri Tryggvasyni.

Hátíðirnar tvær eru annarsvegar í iðnaðarborginni Lípétsk, sem er nokkru fyrir sunnan Moskvu, en hin í Sjolíkovo, sem mun vera n.k. sumardvalarstaður sem mikið er stundaður af leikhúsfólki. Í næsta nágrenni hans er sveitasetur sem eitt sinn var í eigu hins nafntogaða leikskálds Ostrofskíjs, en hátíðin er haldinn honum til heiðurs og til hennar boðið sýningum frá Litháen, Lettlandi, Þýskalandi og Hollandi, auk Rússlands og Íslands.