ImageÞau ykkar sem eru ekki enn sofnuð eða hafið fleygt ykkur í sófann til að horfa á  Desperate Housewives, hafa kannski áhuga á að vita að í útvarpinu á  Rás 1, fimmt. 16 febrúar  kl.22.20, verður flutt áhugavert leikrit eftir írska leikskáldið Brian FitzGibbon, sem búsettur er hér á landi.  Verkið, sem heitir PAPAR, er fantasia um írska munka sem sagt er að hafi sest að á Íslandi áður en Hrafna-Flóki fann landið.  Verkið er byggt á leikriti sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsi Íra, The Abbey Theatre, í júli 1997.   

Þetta dramatíska verk með kómísku ívafi, fjallar um þrjá einsetumenn, sem búa einangraðir í óbyggðu og einmanalegu landi. Árekstrar verða í sögunni þegar einn munkur fær heimþrá og vill snúa aftur til Írlands en munkarnir hafa heitið því að snúa aldrei til baka, dvöl þeirra er einskonar fórn.
 
Leikstjóri er Kristín Jóhannesdóttir og leikendur eru Róbert Arnfinnsson, Þröstur Leó Gunnarsson, Valur Freyr Einarsson og Sigríður María Egilsdóttir. Þýðing: Árna Ibsen. Höfundur tónlistar: Sverrir Guðjónsson.

Ath. Öll íslensk leikrit Útvarpsleikhússins verða framvegis aðgengileg á vefnum í u.þ.b. mánuð frá því að þeim verður útvarpað.