ImageÍ tilefni af sýningu Þjóðleikhússins á Pétri Gaut eftir Henrik Ibsen standa Þjóðleikhúsið og norska sendiráðið fyrir málþingi um þetta stórvirki leikbókmenntanna laugardaginn 18. mars kl. 15:00 í Kassanum.

Sýning Þjóðleikhússins á Pétri Gaut, í leikgerð og leikstjórn Baltasars Kormáks, hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og leikhúsgesta. Hér er á ferðinni eitt af meistarverkum Henriks Ibsens, snilldarlegur ljóðleikur sem aflaði skáldinu heimsfrægðar. Verkið kom fyrst út á bók árið 1867 en tæpum áratug síðar var það frumflutt og hefur reglulega verið sett upp í frægum uppsetningum í helstu leikhúsum heims síðan þá.

Á þessu ári er hundrað ára ártíð Ibsens, og skáldsins er minnst með leiksýningum, hátíðahöldum og hvers kyns uppákomum víða um heim. Í ár er  jafnframt hundrað og þrjátíu ára sýningarafmæli leikritsins Péturs Gauts sem var frumflutt í Kristjaníuleikhúsinu þann 24. febrúar 1876.

Í tengslum við sýningu Þjóðleikhússins á Pétri Gaut verður haldið málþing um verkið og Ibsen í samstarfi við norska sendiráðið laugardaginn 18. mars nk. í Kassanum. Yfirskrift þess er Krossgötur og mun Terje Mærli halda erindi er hann nefnir “Pétur Gautur í samhengi við önnur verk Ibsens”. Terje er einn af fremstu leikstjórum Norðmanna og hefur sett upp yfir þrjátíu sýningar á verkum Ibsens í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi og Japan. Erindi Terjes verður haldið á norsku en að því loknu verða pallborðsumræður á íslensku með þátttöku Baltasars Kormáks leikstjóra, Karls Ágústs Úlfssonar þýðanda, Björns Hlyns Haraldssonar, sem fer með hlutverk Péturs Gauts og Gretars Reynissonar, höfundar leikmyndar. Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins, stýrir umræðunum.  Að þeim loknum verður boðið upp á léttar veitingar.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.