ImageÞann 15. mars rennur út frestur til að sækja um að komast á Leiklistarhátíð Norður-evrópska áhugaleikhúsráðsins sem í þetta sinn verður haldið í Þórshöfn í Færeyjum dagana 3. til 8. ágúst. Til hátíðarinnar er boðið leiksýningum frá Danmörku, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi og Færeyjum.


Hátíðin stendur yfir í 4 heila dagar sem eru fullir af leiksýningum, leiksmiðjum, umræðum og skoðunarferðum. Reiknað er með að þátttakendur mæti fimmtudaginn 3. og fari heim þriðjudaginn 8.

Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga er ábyrg fyrir vali á íslensku sýningunni en umsækjendur þurfa að vera aðilar að Bandalaginu.

Sýningarlengd má að hámarki vera 90 mín. Beðið er um sjónrænar sýningar. Hátíðin greiðir uppihald á hátíðinni fyrir 10 manns frá hverju landi (fullt fæði, gistingu, leikhúsmiða, leiksmiðjur og skoðunarferðir). Ekki er komið verð á uppihaldi fyrir aðra ef leikhópar eru fjölmennari. Fargjöld til og frá Færeyjum þurfa leikhóparnir að borga sjálfir, einnig þurfa þeir að hafa allar sínar tryggingar í lagi. NAR veitir styrki til ferðarinnar.

Nóg er til að byrja með að sækja um í tölvupósti á netfangið info@leiklist.is. Umsækjendur skulu vera viðbúnir því að þurfa að senda inn upptöku af sýningunum. Í fyrstu umsókn þarf eftirtalið að koma fram:

Nafn leikfélags
Nafn tengiliðs
Sími hans og netfang
Nafn leiksýningar
Höfundur, þýðandi og leikstjóri
Sýningarlengd án hlés
Fjöldi þátttakenda í sýningunni

Tilkynnt verður um val á sýningu þann 1. apríl 2006. Aðstandendur sýningarinnar sem verður fyrir valinu þurfa að skila inn öllum viðbótargögnum fyrir 20. apríl. Nánari upplýsingar þegar þar að kemur.