Sýningar á Jesú litla eru orðnar fastur liður í undirbúningi jólanna hjá mörgum Íslendingum og hann snýr aftur á Litla sviðið 4. desember. Þetta er í fjórða sinn sem Jesús litli er sýndur í Borgarleikhúsinu í aðraganda jólanna og ekkert lát á vinsældum hans. Sýningin var ótvíræður sigurvegari Grímunnar árið 2010, hlaut alls 7 tilnefningar og var valin sýning ársins og leikverk ársins. Jesús litli fór í leikferð til Spánar á síðasta ári þar sem hún hlaut frábærar viðtökur enda mannbætandi upplifun í hæsta gæðaflokki! Sýningar hefjast 4. desember

Við erum stödd í Palestínu á því herrans ári núll. Rómverjar hafa sölsað undir sig Palestínu og Heródes er settur landstjóri. Þegar spyrst út að frelsari muni fæðast í landinu gefur hann út tilskipun um að myrða skuli öll sveinbörn, tveggja ára og yngri. Ljótt er það. Og trúðarnir dásamlegu spyrja. Hver fæðir eiginlega barn inn í slíkt ástan? Hver fæðir eiginlega barn inn í slíkt ástand og af hverju er þetta allt svona fyndið?

Öll vitum við að Jólaguðspjallið er einstaklega fallegt og hátíðlegt, en það er ekki síður átakanlegt. Trúðarnir láta allt flakka, umbúðalaust. Þeim er ekkert óviðkomandi, þeir velta við öllum steinum, snúa öllu á hvolf og segja allan sannleikann – og ekkert nema sannleikann. Jafnvel þótt hann sé grimmur. Eða fyndinn.

Höfundar eru Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir, Snorri Freyr Hilmarsson og Benedikt Erlingsson sem jafnframt leikstýrir.