Föstudaginn 10. ágúst var söngleikurinn Gauragangur frumsýndur í Bæjarleikhúsinu. Það eru 13-16 ára nemendur Leikgleði, sumarnámskeiða Leikfélags Mosfellssveitar, sem taka þátt í uppsetningunni ásamt hljómsveit. Kennarar í sumar hafa verið Sigrún Harðardóttir, Agnes Wild, Eva Björg Harðardóttir, Elísabet Skagfjörð og Halldór Sveinsson.

Söngleikurinn Gauragangur fjallar um Orm Óðinsson, ungan sjálfskipaðan snilling, fjölskyldu hans og vini. Sagan, sem er eftir Ólaf Hauk Símonarson, kom fyrst út árið 1988 en á samt mjög vel við árið 2012. Það sama á við um tónlist hljómsveitarinnar Nýdönsk sem samin var fyrir söngleikinn árið 1994.

Það má segja Bæjarleikhúsið sé helgað ungu fólki á sumrin. Í sumar hafa yfir 80 krakkar á aldrinum 6-16 ára tekið þátt í Leikgleði námskeiðunum, þar af 30 í 13-16 ára hópnum. Krakkarnir hafa lagt sig alla fram og mega vera stoltir af þessari sýningu, enda mikið hæfileikafólk á ferð bæði í leik, söng og dansi. Í sumar hafa krakkarnir einnig tekið virkan þátt í leikmyndar- og búningagerð, markaðsmálum og leikskrár- og plakatagerð og þannig kynnst fleiri hliðum leikhúslífsins.

Næstu sýningar verða:
Fimmtudaginn 16. ágúst kl. 19.30,
Sunnudaginn 19. ágúst kl. 18.00,
Þriðjudaginn 21. ágúst kl. 19.30,
Föstudaginn 24. ágúst kl. 19:30 og
Lokasýning laugardaginn 25. ágúst kl. 16:00.

Miðapantanir eru í síma 566 7788 og miðaverð aðeins 1500 krónur.