Aðalverkefni Óperunnar á haustmisseri, óperan Tökin hert (The Turn of the Screw) eftir Britten verður frumsýnd föstudaginn 21. október. Það er óhætt að segja að aðstandendur sýningarinnar séu komnir með smá fiðring í magann. Æfingar hafa gengið vel og það er alveg ljóst að sýningin verður stórglæsileg og áhugaverð bæði fyrir augað og eyrað. Óperan Tökin hert verður aðeins sýnd 6 sinnum í Íslensku óperunni, og er því um að gera að tryggja sér miða sem fyrst til þess að missa ekki af þessari glæsilegu sýningu sem er svo sannarlega á heimsmælikvarða.
Texti óperunnar er eftir Myfanwy Piper byggður á smásögu Henry James sem kom út árið 1898. Óperan var frumsýnd í Feneyjum árið 1954 og hefur síðan þá verið sýnd reglulega í öllum helstu óperuhúsum í heimi, en þetta er í fyrsta skipti sem að Tökin hert er sett upp hér á landi. Myndin hér til vinstri er af Britten.
Hljómsveitarstjóri er Kurt Kopecky, leikstjóri Halldór E. Laxness, leikmynda- og búningahönnuður Snorri Freyr Hilmarsson og ljósahönnuðir Björn Bergsteinn Guðmundsson og Jóhann Bjarni Pálmason. Einsöngvarar eru: Hulda Björk Garðarsdóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Gunnar Guðbjörnsson, Hanna Dóra Sturludóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Ísak Ríkharðsson.
Söguþráður:
Systkinin Miles og Flóra eru munaðarlaus og frændi þeirra og forráðamaður vill sem minnst af þeim vita. Börnin búa á sveitasetri hans, Bly, og hann ræður þangað unga kennslukonu til að hugsa um þau. Fyrir á sveitasetrinu er ráðskonan frú Grose, sem sér um heimilishaldið og er kennslukonunni innan handar. Áður en langt um líður fara dularfullir atburðir að gerast. Afturgöngur fyrrverandi kennslukonu barnanna, frk Jessel, og þjónsins Peter Quint eru á sveimi og reyna þau að ná börnunum á sitt vald, með hörmulegum afleiðingum.