Verkstæði jólasveinanna
Leikfélag Mosfellsbæjar
Leikstjóri: Stefán Bjarnarson

Það er ekki laust við að ég hafi verið spenntur fyrir frumsýningu Leikfélag Mosfellsbæjar á Verkstæði jólasveinanna í Bæjarleikhúsinu. Alinn upp með þessu verki var ég að minnsta kosti örugglega spenntari en fimm ára dóttir mín, sem var alveg steinhissa á því að jólasveinarnir væru með verkstæði í Mosfellbæ.
Hér á landi var þetta verk fyrst flutt af leikurum Þjóðleikhússins í Ríkisútvarpinu áður en það var þrykkt í vínyl á 33 snúninga LP plötu frá SG hljómplötum árið 1973. Eins og hjá svo mörgum öðrum var þessi plata ómissandi hluti af mínum æskujólum og spiluð aftur og aftur og aftur…


Verkið er útvarpsleikrit eftir Thorbjörn Egner í þýðingu Huldu Valtýsdóttur en María Guðmundsdóttir og Agnes Þorkelsdóttir Wild hafa snyrt textann til fyrir leiksvið og staðfært. Þannig fjallar verkið um leikfélagsmann í Mosfellsbæ sem heldur af stað með dóttur sinni að leita að verkstæði jólasveinsins. Það á nefnilega að setja upp jólaskemmtun í Bæjarleikhúsinu og þau vilja endilega að sveinki heilsi upp á börnin þar. Eftir nokkra leit finna þau verkstæðið og fylgjast með jólasveinunum undirbúa jólin.

Leikgerðin er ágæt en verkið geldur samt á nokkrum stöðum fyrir það að vera upphaflega útvarpsleikrit, t.d. í atriðinu þar sem dúkkuvagninn er smíðaður. Um miðbikið er verkið brotið upp af sögumanni og brugðið á leik með söng og salurinn virkjaður í hann. Þó að uppbrotið hafi verið skemmtilegt þá hefði mátt sleppa því og gera meira úr því í lokin, jafnvel eftir uppklappið.

Verkst.jolasv.1Leikararnir eru átta talsins og standa þeir sig allir vel. Þó verður að geta sérstaklega Dóru G. Wild sem heldur uppi tempóinu á verkstæðinu í skemmtilegu hlutverki litla jólasveinsins. Þá er Pétur R. Pétursson ákaflega hlýr og góður í hlutverki gamla jólasveinsins. Andrea Dagbjört Pálsdóttir lifði sig líka inn í hlutverk kettlingsins og datt aldrei úr karakter nema rétt svo þegar hún reis upp á afturlappirnar til þess að spila vel á þverflautu.

Það er vítt til veggja í Bæjarleikhúsinu og sviðið er nýtt til hins ítrasta hér. Eva Björg Harðardóttir sér um búninga, gervi og hönnun leikmyndar og má segja að hún hitti í mark á öllum sviðum. Það er gaman að sjá þegar verkstæðið „opnast“ og fyllir út í sviðið. Jafnvel hefði mátt ganga lengra í smáatriðum í skreytingum og leikmunum á verkstæðinu. Ímyndaðar hurðir heilla mig reyndar ekki eins og sú á heimili gömlu konunnar með stafinn. Förðun og gervi eru virkilega vel unnin og góð heildarmynd á búningunum. Lýsingin Harðar Guðjónssonar er einföld og smekkleg með gullfallegum stjörnubjörtum hliðarveggjum.

Leikstjórinn Stefán Bjarnarson hefur haldið öllum þessum þráðum í hendi sér og getur verið stoltur af útkomunni. Á frumsýningunni var fjöldi barna frá tveggja ára og uppúr og virtist sýningin falla vel í kramið – og líka hjá þeim eldri. Sýningin er ekki nema 45 mínútur, hæfilega löng fyrir minnstu stubbana en dóttir mín var dálítið hissa á að hún væri svona stutt. Hún var mjög ánægð með skemmtunina og fannst sveinarnir hver öðrum skemmtilegri.

Það var vel til fundið hjá Mosfellingum að setja þetta verk á svið. Jólastemmningin byrjar strax í anddyrinu og allir fara út í desembersuddann með bros á vör. Það á að skylda þá sem þurfa að afstressa sig á aðventunni til að kúpla sig út úr jólabrjálæðinu og setjast í stutta stund inn í Bæjarleikhúsið til þess að komast í alvöru jólaskap.

 

Guðmundur Karl Sigurdórsson