Stuttverkahátíðin Margt smátt fór fram í Borgarleikhúsinu laugardaginn 23. október síðastliðinn, annað árið í röð. Þessi litla leiklistarhátíð er einstæð í íslensku leiklistarlífi og þótt víðar væri leitað. Það vekur því nokkra furðu að varla nokkur utanaðkomandi sást á staðnum og gestir voru að miklu leyti vinir og vandamenn þeirra sem sýndu. Að einhverju leyti verður það að skrifast á takmarkaða kynningu en það verður þó að nefna að markpóstur fór nokkuð víða og fréttir birtust í öllum helstu fjölmiðlum. Ljóst er þó að hægt er að gera betur í kynningarmálum hátíðarinnar.

Stuttleikjaformið
Uppsetningar stuttverka eru alls ekki jafn algengar meðal félaga í BÍL og af er látið en það breytir því þó ekki að nokkur félög hafa sinnt þessu leiklistarformi vel undanfarin ár og einnig má nefna að stuttverkahátíðir af ýmsum toga hafa verið haldnar annað hvert ár í tengslum við aðalfund Bandalagsins, allar götur síðan árið 1992. Áhugafélögin hafa því gert þetta leikhúsform að sínu og það er missir atvinnugeirans að meðlimir hans hvorki spreyta sig á forminu né fylgjast með meðhöndlun áhugafélaganna á því.

Valið
Töluvert hefur verið skrafað um val sýninga í ár eins og eðlilegt má teljast. Það fer einfaldlega ekki hjá því að val á leiklistarhátíðir sé umdeilt og var svo einnig nú. Hátíðin í fyrra sætti nokkurri gagnrýni, m.a. frá undirrituðum og var það fyrst og fremst vegna þess að ekki virtust gerðar ýkja miklar kröfur til gæða og voru nokkrar þáttanna til vitnis um það. Í ár fannst eflaust ýmsum koma vel á vondan að koma að skipulagningu hátíðarinnar. Heilt yfir þykir þeim er ritar að hátíðin hafi tekist vel en þó var eitt og annað sem betur hefði mátt fara. Hér og nú skal það viðurkennt að undirrituðum urðu á mistök með því að skilgreina forsendur vals ekki nægjanlega vel fyrir valnefnd. Þar er fyrst og fremst átt við þá ákvörðun nefndarinnar að taka tillit til þess ef sýningar voru ekki fullæfðar eins og raunin var með sumar. Slíkt er að mati þess sem þetta ritar ekki eðlilegt og var hreinlega í andstöðu við það sem rætt hafði verið í kjölfar Margs smás í fyrra. Þetta kom ekki í ljós fyrr en eftir að nefndin hafði unnið sína vinnu og skilað niðurstöðum og af sanngirni er tæplega hægt að saka hana um mistökin. Nefndin gaf sér ákveðnar forsendur og rökstuddi valið með þeim. Undirritaður hefur stuttlega rætt þetta við formann nefndarinnar og þó ekki séu aðilar þar sammála er ljóst að nefndin hefur verið samkvæm sjálfri sér út frá gefnum forsendum.

Portrett
Sýningarnar
Ekki er ætlunin að bera hér fram allsherjar gagnrýni á sýningarnar á Mörgu smáu. Hinsvegar var undirritaður hugsi yfir ýmsu því sem fyrir augu bar og vill koma því á framfæri með þeirri frómu ósk að áhugasamir íhugi og jafnvel svari ef þeim þykir ástæða til.
Fyrst af öllu verður að nefna að sem heild virkaði hátíðin í ár mun betur en sú í fyrra. Þá voru sumar sýningar langt undir eðlilegum gæðamörkum og þó ekki hafa allar sýningarnar í ár verið af miklum gæðum var þó engin sem skar sig svo úr að vandræðalegt væri. Þó dagskráin væri helmingi styttri í ár en í fyrra var ekki síðri fjölbreytni í verkefnavali og framsetningu en þá. Það sem sat hinsvegar fastast í hugskotinu að sýningum loknum var hversu áberandi slök leikstjórn var á sumum sýninganna. Í mörgum tilvikum sáust ágætlega skrifuð og leikin verk sulla í einhverri meðalmennsku þar sem þá leikstjórn skorti sem hífir slaka sýningu upp í það að vera þokkalega og þokkalega sýningu upp í það vera góða.
Auðvelt væri að ræða um sýningarnar á þessum almennu nótum og láta þar við sitja en að mati þess sem þetta ritar er það hollt fyrir hreyfinguna og meðlimi hennar að hafa opinskáa og heiðarlega umræðu um það sem við erum að gera. Það þýðir að jafnvel þarf að koma við kaunin á fólki sem maður þekkir vel og telur jafnvel til vina sinna. Verður því farið nokkrum orðum um þær sýningar sem sátu í hugskoti undirritaðs af framangreindum sökum.
Leikfélag Seyðisfjarðar sýndi Dag myrkurs sem var ekki ýkja merkilegt leikverk en alveg þokkalega leikið. Hinsvegar var mjög áberandi að leikstjórn var lítil ef þá nokkur og þar af leiðandi var framvindan frekar hikstandi og ómarkviss.
Leikfélag Hafnarfjarðar sýndi verkið Dauðinn drepur á dyr eftir Woody Allen og var það eina verkið á hátíðinni sem ekki var frumsamið. Hugmyndin að verkinu er skemmtileg og það er lipurlega skrifað auk þess sem leikararnir stóðu sig prýðilega. Hér steytti hinsvegar á leikstjórninni sem var ómarkviss. Verkið hreinlega hrópaði á agaðan og snarpan samleik sem var því miður ekki til staðar og skrifast slíkt að öllu jöfnu á leikstjóra.
Halaleikhópurinn sýndi Portrett sem gagnrýnandi Morgunblaðsins kallaði statiskasta verk sem hann hefði séð þegar það var frumsýnt í fyrra. Einmitt þess vegna kallar verkið á mjög nákvæma og næma leikstjórn. Máltækið að ein mynd segi meira en þúsund orð hefur sennilega hvergi átt betur við en í þessu samhengi. Þegar leikarar geta nánast ekkert hreyft sig verður hvert minnsta svipbrigði þeim mun meira áberandi og minnstu meiningu þarf að túlka með tóninum í röddinni. Hér varð áberandi skortur á leikstjórn hreinlega æpandi.
Leikfélag Mosfellssveitar sýndi leikþáttinn Forvitni sem braut aðeins upp hið hefðbundna leikform þar sem persónurnar sögðu lítið sem ekkert en hugsuðu þeim mun meira og heyrðust þær hugsanir í hljóðkerfi. Verkið sem slíkt hreif undirritaðan ekki en þó hefði verið hægt að gera úr því skondinn þátt með markvissri leikstjórn. Framsetningin býður upp á skemmtilegt samspil hugsana persónanna annarsvegar og þöguls leiks leikaranna hinsvegar. Því miður var þetta samspil fjarri góðu gamni enda sátu leikararnir nánast steinrunnir allan tímann og varla hægt að tala um leik af þeirra hálfu.

Eflaust væri hægt að finna að leikstjórn á Kjallarabörnum Leikfélags Hafnarfjarðar en það fellur reyndar einhvernveginn í skuggann á öðru í þessu einkennilega verki sem virkaði mjög áhugavert í upphafi og en stóð síðan ekki við neitt af því sem það lofaði. Það er auðvelt að vekja áhuga með óræðni og sterkri upphafsmynd (og reyndar ágætum leik) en ef ekkert annað bætist við, sitja áhorfendur ósáttir eftir í lok sýningar. Undirritaður heyrði sýningunni líkt við tilraunaleikhús áranna í kringum 1970 og má það til sanns vegar færa. Þokkalegur leikstjóri hefði kannski ekki bætt verkið en hefði þó vafalaust stytt þessa sýningu umtalsvert sem hefði verið til bóta.
Að lokum vil ég nefna þá sýningu sem að mati þess sem hér skrifar var hápunktur hátíðarinnar. Pörunardans hnífakastarans og skeggjuðu konunnar hjá Gunnari Birni frá Leikfélagi Hafnarfjarðar og Völu frá Leikfélagi Mosfellssveitar var þegar best tókst til tær snilld. Þau skötuhjúin þrýstu oft og tíðum á hláturtaugar áhorfenda á hárréttum augnablikum og sýndu framúrskarandi trúðleik. Engu að síður voru þó nokkur augnablik í sýningunni þar sem mat leikaranna á áhorfendum brást og atriði voru teygð óhóflega. Hér hefði ekki bara þurft sýn leikstjóra heldur einnig nokkur rennsli með áhorfendum til að slípa til þáttinn. Hæfileikana skorti a.m.k. ekki.
Hér hafa verið taldar upp nokkrar sýningar og fundið að leikstjórnarþætti þeirra. Það þýðir ekki að þær hafi endilega verið ómögulegar enda sést það best á því að besta sýning hátíðarinnar að mati undirritaðs er á meðal þeirra sem gagnrýndar eru. Freistandi hefði verið að nefna einnig þátt Hugleiks Án mín en þar er þó ekki um skort á leikstjórn að ræða heldur er undirritaður einfaldlega ekki hallur undir þann leikstjórnarstíl sem birtist í sýningunni. Auk þess er ekki annað en hægt að taka ofan fyrir þeirri snilldarhugmynd að láta sögumanninn birtast ljóslifandi og setjast á rúmstokkinn hjá kerlingunni.
Þá rennur undirrituðum blóðið til skyldunnar að nefna sýningu Freyvangsleikhússins á Hlýðni – Óhlýðni sem var sérlega vel unnin sýning á afar skemmtilegu verki.
Vafalaust eru margir ósammála þeim skoðunum sem hér birtast og fróðlegt væri að fá einhverjar umræður um þær hér á vefnum.

Maðurinn með ljáinn
Gagnrýnendurnir
Silja Aðalsteinsdóttir og Jón Viðar Jónsson fjölluðu um sýningarnar að þeim loknum og stóðu sig að mestu vel. Þau virkuðu hreinskilin og sögðu væmnilaust frá því sem hreif þau. Þá skófu þau ekki utan af hlutunum ef þeim þótti þurfa án þess að fara yfir strikið í neikvæðni. Þannig eiga gagnrýnendur að vera.
Ekki verður þó komist hjá því að nefna ótrúlega athugasemd Jóns Viðars um verkið Dauðinn drepur á dyr eftir Woody Allen. Hann hélt því fram án þess að blikna, að þar sem þar hefði verið eina verkið sem var skrifað af „fagmanni“, hefði ekki verið við því að búast að leikararnir réðu við það. Jón Viðars vegna má vona að hann hafi einfaldlega ekki hugsað þessi orð sín til enda, en líklegra og sorglegra er þó að hér hafi einkennilegir fordómar ráðið för. Það virðist landlægt hjá leikhúsfólki sem viðriðið er atvinnugeirann að í hvert sinn sem hægt er að finna að einhverju í sýningum áhugafólks sé það vegna einhvers óskilgreinds „eðlis“ þeirrar listar sem framin er á þeim vettvangi. Með öðrum orðum þá sé einhver óskilgreindur eðlismunur á leikverkum, allt eftir því hvort sá sem skrifar er „fagmaður“ (hvað svo sem það nú þýðir) eða ekki. Þessi eðlismunur valdi því jafnframt að engum sé mögulegt að flytja verk „fagmanna í leikritun“ nema „fagmönnum í leik“. Fari undirritaður hér með rangt mál um meiningar Jóns Viðars er honum örugglega velkomið að leiðrétta það á þessum vettvangi. Jóni til upplýsingar má svo benda á að verk Woody Allen var auk þess langt frá því að vera best skrifaða verkið á hátíðinni.

Margt smátt

Stuttverkahátíðin Margt smátt er vonandi komin til vera og Borgarleikhúsið á heiður skilið fyrir að bjóða til hennar. Að líkindum verður hún ekki haldin að ári enda nóg að gera hjá áhugahreyfingunni næsta sumar við að halda alþjóðlega leiklistarhátíð á Akureyri. Hinsvegar hefur það verið rætt að stefna að því að halda hana á tveggja ára fresti og jafnvel að færa hana yfir á vorin. Má leiða rök að því að það sé rökréttara en að halda árlega hátíð að hausti.

Hörður Sigurðarson