Laugardaginn 6. nóvember síðastliðinn frumsýndi Leikfélag Reyðarfjarðar leikritið Álagabærinn eftir Ármann Guðmundsson. Leikritið gengur mikið út á stutt atriði, mörg með söng. Þetta gerði það að verkum að mér fannst ég á stundum vera að horfa á þorrablót og varð eitthvað hvumpinn á tímabili. Eftir sýninguna sá ég svo í leikskrá að Ármann Guðmundsson segir í stuttum pistli “…að þegar verkið fór að taka á sig mynd, var það í hálfgerðum þorrablótsstíl. Áherslan er lögð á skemmtigildið en þættir eins og sagnfræðilegt heimildargildi og fagurfræðileg uppbygging voru látnir mæta afgangi.” Á margan hátt er þetta afskaplega raunsönn lýsing á þessari sýningu. Þarna eru farsakennd atriði með tilheyrandi hlaupum, ýktar persónur og svipbrigði í stíl við það. Kannski er það einmitt grunnhugsunin á bak við þetta verk, einhverskonar ýkjugrín. Mér finnst það sosum allt í lagi, einmitt á þorrablóti, en kannski ekki viðeigandi á leiksviði.

Leikarar stóðu sig þó vel í þessu verki, pössuðu inn í þennan söguþráð og voru á sinn hátt passlega klisjulegir. Grósserinn Þjóðólfur var skemmtilegur og söng einna best af þeim sem voru í þessum hluta sýningarinnar. Kengbeinn, bæjarstjóri, var vandræðalegur eins og hann hefur átt að vera í meðförum Gunnars Theodórs Gunnarssonar. Elías Geir og Fjóla Sverrisdóttir voru fín sem fólkið sem bíður og bíður og reynir svo að smella sér á auðfenginn skyndigróða með viðeigandi afleiðingum. Gunnar Ragnar Jónsson var mælingamaðurinn Styrmir Álsson og gerði það vel, til dæmis hefur hann einhverja viðkvæmnislega rödd sem samt er gædd sérkennilegri dýpt sem kom þessum ámátlega karakter vel til skila. Hafdís Sjöfn Harðardóttir lék listakonuna Gera Gjör. Ég verð að viðurkenna að þessi klisja um listakonuna sem kemur að sunnan og skiptir um karlmenn eins og nærbuxur og yrkir leiðinleg ljóð og er á móti öllu fór dálítið mikið í taugarnar á mér. Ekki leikurinn, því hann var fínn, heldur þessi persóna, nafnið og hugmyndin um listafólk. Og það að hún mótmæli öllu, sama hvað það er, var auðvitað alltof grunnt. Séra Friðmey var ágætlega leikin veimiltíta af Sóleyju Valdimarsdóttur og Aðalheiður Kristjánsdóttir lék ágætlega Ljósbrá, konu athafnamannsins. Eins og sjá má, eru nöfn aðalpersónanna þannig að búnar eru til stereótýpur sem bera sérkennileg og lýsandi nöfn. Það er auðvitað viðeigandi þorrablótslegt.

Eitt fannst mér þó standa upp úr á þessari sýningu, tvær persónur, Reyða og Eskill, sem eru einskonar draugar sem birtast við og við og eru á skjön við allar aðrar persónur í verkinu en halda samt utan um biðina sem er þráðurinn sem verkið snýst um. Þær eru leiknar af þeim Hjördísi Ósk Sigtryggsdóttur og Ólafi Gunnarssyni, sem mér fannst vera maður sýningarinnar. Hann átti stórfenglega takta í söng og átti tvær bestu setningar verksins. Sú fyrri var síðasta setning fyrir hlé, þegar hann segir salnum að nú skuli tekið hlé í svo sem eins og tíu ár. Hin setningin er fyrsta setning eftir hlé og er að því er mig minnir svona: “Hvort þykir þér betra að bíða einu sinni lengi eða að bíða oft og stutt?” Ég gæti alveg ímyndað mér þessar tvær persónur í stuttum einþáttungi sem hefði getað tekið þessa bið sveitarfélagsins fyrir á mun kröftugri hátt en verkið gerir annars. Það er samt þarna margt vel gert, hljómsveitin er fín og söngur á köflum alveg ágætur. Sviðsmyndin er þorrablótsleg og á líklega að vera það. Salurinn skemmti sér vel og viðtökur voru góðar og ég held svona þegar öllu er á botninn hvolft að þetta sé viðeigandi sýning um viðeigandi málefni, þar sem öll kurl eru langt frá því að vera komin til grafar.

Sigurður Ingólfsson