Í gær voru slétt 121 ár frá því að Leikfélag Sauðárkróks var stofnað en það var 13. apríl 1888. Þetta var níu árum áður en þeir stofnuðu leikfélag í Reykjavík. LS starfaði af miklum móð í tvo áratugi, en lagðist svo í dvala. Var endurreist árið 1941 og hefur í tæp sjötíu ár verið burðarásinn í blómlegu skagfirsku leiklistarlífi. Í ár er haldið uppá tímamótin með því að sýna á Sæluviku verkið Frá okkar fyrstu kynnum, eftir Jón Ormar og Guðbrand Ægi. Auk þess verður gefið út afmælisrit félagsins sem Unnar Ingvarsson hefur umsjón með.
Frá okkar fyrstu kynnum skiptist í tvennt. Fyrrihlutinn nefnist Góðum vinum fagnað. Þar eru atriði úr Skugga-Sveini, Manni og konu, Pilti og stúlku, Gullna hliðinu og Íslandsklukkunni, svo fátt eitt sé nefnt. Eftir hlé hefst Þokkaleg þvæla, en í þeim hluta er sýnt úr Saumastofunni, Þrek og tár og fleiri skemmtilegum verkum. Hljómsveit og kór sjá um tónlist og söng í stykkinu. Frumsýning er 26. apríl og aðeins eru fyrirhugaðar tíu sýningar!
Myndin sem fylgir er þó ekki úr Frá okkar fyrstu kynnum heldur Ærsladraugi Noels Coward sem var eitt af fjölmörgum verkum sem félagið sýndi á síðustu öld.