Leikfélag Ölfuss virðist komið til að vera. Félagið hefur á undanförnum árum fengið til liðs við sig góða leikstjóra og sett upp skemmtilegar sýningar. Góð blanda sem skilar árangri. Nú er komið á fjalirnar í Versölum leikritið Blúndur og blásýra, kolsvört kómedía um Brewster fjölskylduna sem er langt frá því að vera öll þar sem hún er séð. Guðmundur Karl Sigurdórsson brá sér á sýninguna. Umfjöllunin var upphaflega birt í Sunnlenska fréttablaðinu 21. janúar sl. og er birt með góðfúslegu leyfi höfundar.
Leikhúsgagnrýnandinn Mortimer Brewster býr hjá frænkum sínum tveimur í Brooklyn. Á ættaróðalinu býr einnig geðklofa Brewster bróðir og fljótlega bætist sá þriðji í hópinn, ógeðfelldastur þeirra allra með miður göfug áform, og reyndar ýmislegt annað, í farteskinu.
Þó að verkið sé komið til ára sinna stendur það vel fyrir sínu sem skemmtilegt stykki enn í dag. Það er reyndar óhóflega langt fram að hléi en er afgreitt mun hraðar eftir hlé. Kannski spilaði það inní að um 2. sýningu var að ræða, a.m.k. vantaði töluvert upp á tempóið hjá leikurunum á köflum.
Leikhópurinn stendur sig vel í misstórum hlutverkum sem langflest eru þó bitastæð. Ásta Margrét Grétarsdóttir sló á hárrétta strengi í hlutverki Abbý Brewster og Magnþóra Kristjánsdóttir fór létt með hinn kostulega Tedda. Ólafur Hannesson bjó til snarbrjálaðan Jónatan og vakti mikinn hlátur en framsögnin hefði mátt vera skýrari á köflum. Lögregluþjónarnir, leiknir af Huldu Gunnarsdóttur og Aðalbjörgu Jóhönnu Helgadóttur, voru skemmtilega afslappaðir og leystu þær sinn hlut með prýði. Mikið mæðir á Daníel Hauki Arnarsyni í hlutverki Mortimers. Daníel stóð sig vel þó að óöryggis hafi gætt í þeim köflum sem Mortimer er hvað óöruggastur með sig.
Útlit sýningarinnar er allt hið smekklegasta. Sviðsmyndin vönduð eins og leikstjórans er von og vísa og gefur góða heildarmynd. Lýsing Benedikts Axelssonar er einföld og stílhrein þó að stundum hafi verið skuggsýnt á framsviðinu.
Þegar ég var að skrifa dóminn fyrirfram á leiðinni niður í Þorlákshöfn (í huganum reyndar) þá var sýningaraðstaðan það eina sem ég setti fyrir mig. Sú var líka raunin. Sviðið er lágt og áhorfendur sitja á sléttu gólfi þannig að það tók dálítinn tíma fyrir salinn að stilla sig af til að kíkja yfir öxlina á næsta manni. Og ef einhver hreyfði sig á fremsta bekk þá þurfti öll runan fyrir aftan að endurstilla sig.
Leikfélag Ölfuss er með öfluga kjarna sem á bara eftir að stækka. Sú staðreynd kallar á svona vaxandi félag finni sér hentugri sýningaraðstöðu.
Það er óhætt að mæla með þessari sýningu Ölfusinga fyrir unga sem aldna. Ég þakka fyrir brauðbolluna sem ég fékk í höfuðið í upphafi sýningar, sumir fengu haus í fangið en aðrir sluppu og allir virtust skemmta sér vel.
Guðmundur Karl Sigurdórsson
PS. Leikskráin var með smekklegasta móti en höfundar hennar var ekki getið í skránni sjálfri. Það er miður.
Leikfélag Ölfuss sýnir Blúndur og blásýra eftir Joseph Otto Kesselring. Leikstjóri Gunnar Björn Guðmundsson. Helstu leikarar: Daníel Haukur Arnarson, Ásta Margrét Grétarsdóttir, Þrúður Sigurðar, Magnþóra Kristjánsdóttir, Ólafur Hannesson og Ragnheiður Helga Jónsdóttir. Leikmyndasmiður: Vilhjálmur Garðarsson. Ljósameistari: Benedikt Axelsson. Búningar, hár og förðun: Helena Helgadóttir og Margrét Sigurðardóttir. 2. sýning í Versölum 17. janúar 2009.