kopologoLeikfélag Kópavogs
Umbúðalaust
Leikstjóri: Vigdís Jakobsdóttir

Ekkert íslenskt leikfélag leggur eins mikið upp úr vinnubrögðum „Devised theatre“ og Leikfélag Kópavogs. Í fréttatilkynningum um nýjustu sýningu félagsins kemur fram að það sé beinlínis stefna að árlega sé sett á svið amk ein sýning sem unnin er á þennan hátt; sköpuð frá grunni af leikhóp, leikstjóra og hjálparkokkum, með eða án fyrirfram gefins efniviðar.

Þorgeir Tryggvason skrifar um Umbúðalaust, sýningu Leikfélags Kópavogs sem frumsýnd var 15. janúar sl.

 

Að þessu sinni er það Vigdís Jakobsdóttir sem stýrir ellefu manna leikhópi og ekki verður annað séð en að byrjað hafi verið með algerlega hreint borð. Sýningin hefur fyrir vikið bæði kosti og galla sýningar sem byggir alfarið á hópvinnu og spuna.

Vel skipaður leikhópurinn skilar sínu af algerri einlægni og sannfæringarkrafti. Allir ráða eðli málsins samkvæmt fullkomlega við verkefni sitt, þetta er jú sköpunarverk leikaranna. Á hinn bóginn bera tíðindin sem sýningin skilar  það með sér að hér hafi verið byrjað á núllpunkti. Fyrir vikið fáum við erkitýpískar sögur með nokkuð fyrirsjáanlegum persónum. Feimnislegt ástarsamband, uppreisn gegn eigingjörnum væntingum foreldra og blindgata efnishyggjunnar eru meðal þráðanna sem spunnir eru. Efnahagshrunið hefur eðlilega tekið sitt pláss í hugmyndavinnuni og mótar grundvallarforsendur sýningarinnar, en fær góðu heilli ekki að taka hana yfir í smáatriðum. Enda er hér verið að skoða samskipti fólks undir stækkunargleri, ekki samfélagið í víðmynd.

Auðvitað eru okkur ekki sögð nein byltingarkennd sannindi á þeim rúma klukkutíma sem sýningin stendur. Engu að síður eru viðfangsefnin reifuð og sálarlíf afhjúpað á þann nærgöngula hátt sem vinnuaðferðin skilar þegar vel og heiðarlega er unnið, eins og hér.

Sýningin er vel samsett. Hlutarnir flæða vel hver inn í annan og leikararnir styðja vel við atriði hvers annars. Það er varla við hæfi að tilgreina einstaka leikara og frammistöðu þeirra í sýningu sem hvílir jafn vel í samvinnu og stuðningi allra.

Það sem sætir svo helst tíðindum í Umbúðalaust og skapar óneitanlega mestu leikhúsgleðina eru sviðsetningarhugmyndirnar. Ljósin sem leikararnir bera með sér eru skínandi hugmynd sem er vel notuð en mögulega vannýtt. Og leikmyndin er aldeilis frábær.  Merkingarþrungin, falleg og þénug. Mig langar eiginlega til að halda leyndu hvernig hún er til að skemma síður áhrifin fyrir komandi áhorfendum. En einnig hún hefði jafnvel þolað fjölbreyttari notkun sem hún klárlega býr yfir. Búningar eru fallegir á sinn samræmda „leikhúslega“ hátt. Fyrir mig hefði samt ekkert komið að sök að þeir vísuðu skýrar í samtímann sem við erum svo greinilega stödd í.

Umbúðalaust er sýning sem bítur ekki fast, greinir ekki djúpt eða hristir áhorfandann harkalega. En hún er vönduð, falleg og með hjartað á réttum stað, og ágætis dæmi þess sem vinnuaðferðin bíður upp á.

Þorgeir Tryggvason.