Nú erum við leikhússjúklingarnir búnir að liggja yfir bæklingum leikhúsanna í rúma viku og grandskoða efnisskránna. Hér eru þau tíu atriði sem vöktu mesta athygli mína svona fyrsta kastið.

 
Nýja sviðið í Borgarleikhúsinu

Mikils er að vænta af Benedikt Erlingssyni sem hefur lyklavöld á nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu. Góð hugmynd að setja einn mann yfir þar og gefa honum svigrúm til að móta listræna stefnu. Spennandi.

 
Veislan

Heyrst hefur að uppfærsla Þjóðleikhússins á dogmastykki Winterbergs verði með nýstárlegu sniði. Engin ástæða til að fara út í smáatriði, en öllum tilraunum er fagnað.

 
Óvæntir bólfélagar

Hlín Agnarsdóttir og Viðar Eggertson fara í fötin hans Þórhalls Sigurðssonar og stýra frumflutningi á tveimur nýjum verkum eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem hingað til hefur verið giska fastheldinn á leikstjóra.

 
Strompleikurinn

Endurmat á íslenskum leikritum er ekki ofarlega í forgangsröð atvinnuleikhúsanna. Þeim mun meira hlökkum við til að sjá Strompleikinn. Var Laxness kannski andsk. ekkert leikskáld? Sjáum til.

 
Þögnin í Leikfélagi Íslands

Forsprakkar Leikfélags Íslands hafa hingað til ekki verið þekktir fyrir að setja ljós sitt undir mæliker. Þegar þetta er skrifað hefur samt enn ekkert birst um vetrardagskrá  kemmtanasmiðjunnar í Loftkastalanum og Iðnó. Á kannski bara að láta verkin tala?

 
Túskildingsóperan

Einhver hefði haldið að þyrfti meira en einn útskriftarbekk í Nemendaleikhúsinu til að flytja Túskildingsóperuna. Ekki Viðar Eggertsson. Munið bara að verkið er eftir Weill, Brecht OG Elizabetu Hauptmann.

 
Flauta
Töfraflautan

Mozart var svo mikill snillingur að þó Töfraflautan sé dramatúrgísk martröð þá skiptir það engu máli, nema kannski fyrir leikstjórann. Hilmir Snær Guðnason fer fyrir alíslensku liði hjá Íslensku Óperunni.

 
Þorvaldur Þorsteinsson

Maríusögur sögðu okkur hvers er að vænta af Þorvaldi og þó svo að Við feðgarnir og Bein útsending hafi svosem ekki tekið af öll tvímæli þá erum við ennþá spennt. Ekki spillir fyrir að Þorvaldur verður með heil fjögur ný verk á fjölunum í vetur, auk skáldsögunnar sem kemur út fyrir jólin. Það er kannski eitthvað hæft í því sem kellingin sagði: You don’t need time to have ideas, you just need to have them.

 
Enginn Shakespeare

Eftir vægast sagt sérkennilegar uppfærslur á helstu verkum kallsins undanfarin ár er kærkomið að honum verði leyft að hvíla í friði í vetur. Nema náttúrulega Leikfélög Íslands og Akureyrar ætli að setja upp Rósastríðin eða Tímon Aþening…

 
Upphitað

Enn er hægt að sjá Með fulla vasa af grjóti í Þjóðleikhúsinu, þrátt fyrir alla fúlu Árnajónsen-brandarana. Og ekki missa af Öndvegiskonum í Borgarleikhúsinu. Um aðra afganga frá því í fyrra er ég ekki eins viss.