Jólasýning Borgarleikhússins er verkið Ófagra veröld eftir Anthony Neilson. Það verður frumsýnt 29.desember.
Ófagra veröld er ævintýri sem hefur sterka tilvísun í Lísu í Undralandi eftir Lewis Carol. Líkt og í sögu Lewis Carol er verkið lýsing á samfélaginu, gildum þess, þversögnum og áskorunum, um leið og það er þroskasaga Lísu. Við ferðumst með Lísu til Sundralands og kynnumst þar sérkennilegum lögmálum þeirrar víddar.
Á ferð sinni um Sundraland, mæta Lísu krefjandi verkefni og óvæntar uppákomur. Líkt og hjá Carol kemst Lísa heim. Þar gilda önnur lögmál og verkefnin eru önnur. Lísa stendur frammi fyrir vali. Hvorumegin vill hún vera? En öllu vali fylgir lítilsháttar fórn.
Í verkinu er heimur geðveiki og ranghugmynda skoðaður frá sjónarhorni sjúklingsins. Þetta er heillandi en um leið nærgöngul sýn sem tekur á sig form ævintýris og felur á engan hátt í sér dóm á sjúkdóminn. Verkið er allt í senn, ævintýri, gamanleikur, söngleikur, harmleikur og samfélagsspegill.
Höfundur verksins er skoti og er honum leikhús í blóð borið. Foreldrar hans voru leikhúsfólk og eyddi hann stórum hluta æskunnar í návígi við ýmis leikhúsform. Neilson er fjölhæfur höfundur sem er óhræddur við viðkvæm málefni og finnur þeim farveg í þekktum og óþekktum leiklistarformum.
Með hlutverk sýningarinnar fara: Ilmur Kristjánsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson, Björn Ingi Hilmarsson, Charlotte Böving, Guðmundur Ólafsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Þór Tulinius og Þórhallur Sigurðsson (Laddi).
Listrænir stjórnendur:
Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Búningar: Helga I. Stefánsdóttir
Tónlist: Pétur Þór Benediktsson
Leikmynd: Gretar Reynisson
Leikstjórn: Benedikt Erlingsson