ImageEldhús eftir máli, leikgerð Völu Þórsdóttur á sex smásögum Svövu Jakobsdóttur, hefur heldur betur  fengið góðar viðtökur hjá áhorfendum. Nú hefur verið ákveðið að framlengja sýningartímabil verksins út febrúar og hafa nú hvorki fleiri né færri en 18 sýningar verið settar í sölu en uppselt er nú þegar á margar þeirra. Að öllum líkindum er þetta Þjóðleikhúsmet, ef ekki Íslandsmet, í fjölda sýninga á einum mánuði.

Leikstjórinn Ágústa Skúladóttir og leikhópurinn Aino Freyja Järvelä, Kjartan Guðjónsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, María Pálsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir og Þórunn Lárusdóttir, skapa skemmtilega sýningu sem höfðar jafnt til ungra sem aldinna.

Sunnudagskvöld með Svövu; fyrirlestur, kvöldverður, leiksýning og umræður, hafa einnig slegið í gegn og nú hefur verið bætt við tveimur fyrirlestrarkvöldum; þann 19. febrúar verður Soffía Auður Birgisdóttir með fyrirlesturinn Goðsögur í fortíð og samtíð og þann 26. febrúar er röðin komin að Dagnýju Kristjánsdóttur með Leigjendur hjá Svövu.