Íslenska Óperan frumsýnir sunnudaginn 5. febrúar Öskubusku eftir ítalska tónskáldið Gioacchino Rossini við texta eftir Jacopo Ferretti. Öskubuska er reglulega á fjölum helstu óperuhúsa víðsvegar um heiminn, en þetta er í fyrsta skipti sem hún er sett upp hér á landi. Leikstjóri er Paul Suter og hljómsveitarstjóri er Kurt Kopecky.
Söguþráður óperunnar byggir á ævintýrinu velþekkta um Öskubusku. Í óperunni er það reyndar vondi stjúpfaðirinn Don Magnifico og hégómlegu dætur hans tvær, Clorinda og Tisbe, sem gera Öskubusku lífið leitt. Það er svo heimspekingurinn Alidoro sem kemur í stað álfkonunnar góðu og sér til þess að Öskubuska komist á dansleikinn í höllinni. Eins og í mörgum góðum óperum eru það dulargervin sem gegna mikilvægu hlutverki í óperunni Öskubusku. Prinsinn Ramiro og þjónninn Dandini hafa skipti á hlutverkum. Stjúpsysturnar Clorinda og Tisbe eru því uppteknar af því að koma sér í mjúkinn hjá þjóninum, sem er dulbúinn sem prinsinn, á meðan Öskubuska og hinn raunverulegi prins, dulbúinn sem þjónn, fella hugi saman. Á dansleiknum í höllinni lætur Öskubuska prinsinn fá annað af tveimur armböndum sínum og segir honum að leita sig uppi og ef hann elski sig enn, þá verði hún hans. Þegar prinsinn finnur Öskubusku kemst upp hver er hinn sanni prins og verða Don Magnifico og dætur hans æf af reiði, þegar hann tilkynnir að Öskubuska sé hans útvalda. Þau vísa henni á bug þegar hún reynir að kveðja þau. Allt fer þó vel að lokum og Don Magnifico og dætur hans sjá að sér og leita fyrirgefningar Öskubusku á öllu því illa sem þau hafa gert henni. Öskubuska fyrirgefur þeim því hún óskar þess eins að deila hamingju sinni með öðrum.
Öskubuska (La Cenerentola) er ein af vinsælustu óperum Rossinis en þetta er í fyrsta skipti sem að hún er sett upp hér á landi og því ættu óperuunnendur ekki að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara og tryggja sér miða á sýninguna sem fyrst. Öskubuska verður frumsýnd sunnudaginn 5. mars og alls verða 10 sýningar á óperunni í febrúar og mars. Einsöngvarar í sýningunni eru Sesselja Kristjánsdóttir (Öskubuska), Garðar Thór Cortes (Don Ramiro, prinsinn), Davíð Ólafsson (Don Magnifico, stjúpfaðirinn), Einar Th. Guðmundsson (Alidoro, lærimeistari prinsins), Hlín Pétursdóttir (Clorinda, stjúpsystir Öskubusku) og Anna Margrét Óskarsdóttir (Tisbe, stjúpsystir Öskubusku). Sviðs – og búningahönnuður er Season Chiu og ljósahönnuður er Jóhann Bjarni Pálmason.
Vinafélag Íslensku óperunnar stendur fyrir kynningum fyrir sýningar á Öskubusku eftir Rossini sem verður frumsýnd 5. febrúar nk. Gunnsteinn Ólafsson, tónlistarmaður, og Ingólfur Níels Árnason, fræðslustjóri Óperunnar og óperuleikstjóri, munu sjá um kynningarnar sem hefjast kl. 19.15 fyrir allar sýningar, nema frumsýningu og sýninguna 5. mars en þá hefst kynningin kl. 14.15 og sýningin kl. 15.00. Kynningin fer fram í salnum og stendur yfir í c.a 20-30 mínútur og er innifalin í miðaverði.
Enn eru laus sæti á námskeið um Öskubusku og Rossini sem er haldið af Vinafélagi Íslensku óperunnar í samstarfi við Endurmenntun háskóla Íslands og hefst 7. febrúar. Þrjú fyrstu kvöld námskeiðsins, 7. febrúar, 14. febrúar, og 21. febrúar verður fjallað um Rossini og Öskubusku og og einstakir hlutar óperunnar teknir til nánari skoðunar, með hjálp tón- og mynddæma. Síðasta kvöldið, sunnudaginn 26. febrúar, verður farið á sýningu í Óperunni þar sem færi gefst á stuttu spjalli við nokkra af aðstandendum uppsetningarinnar. Kennari á námskeiðinu er Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður.