ImageNemendamótssöngleikur Verslunarskóla Íslands, Á tjá og tundri verður frumsýndur þann 2. febrúar n.k.. Á undanförnum árum hafa þessir söngleikir skapað sér varanlegan sess í leikhúslífi borgarinnar og hvað eftir annað slegið í gegn. Nú hafa Verslókrakkarnir fengið aftur til liðs við sig Gunnar Helgason en hann gerði þrjár af vinsælustu Verslósýningunum fyrir nokkrum árum; Thriller, Wake me up og Slappaðu af. Nú semur hann verkið sjálfur jafnframt því að leikstýra.

Verkið fjallar um ungt par sem er að gifta sig þegar þrír af nánustu aðstandendum þeirra standa upp og mótmæla því að athöfnin fari fram. Hvað er þá til ráða? Það verður úr að allir gestirnir fara í veisluna og reyna að ráða fram úr því af hverju í ósköpunum þessi staða kom upp. Allir opna sig og margur óþægilegur sannleikurinn er leiddur í ljós. Hver fór í sleik við hvern hvenær? Mega mömmur segja kynlífsreynslusögur? Mega pabbar fara á hausinn? Hvernig var fyrsti kossinn? Fyrsta kynlífreynslan? Hvenær má vera afbrýðisamur og hvenær ekki? Hvert leyndarmálið af öðru er afhjúpað og aðeins ást þeirra hjónaleysanna getur komið í veg fyrir algjöra upplausn.

Lögin í sýningunni koma héðan og þaðan, íslensk og erlend en öll eiga þau það sameiginlegt að vera fyrsta flokks.

Dansatriðin eru einhver þau glæsilegustu sem sést hafa hjá Versló enda eru þær Birna og Guðfinna Björnsdætur sem semja þá en þær hafa samið dansa við flesta af stærstu söngleikjum landsins undanfarin ár.

Jón Ólafsson sér um tónlistina og er óþarfi að kynna hann frekar eins reyndur í bransanum og hann er.