Kynning á verkefnum starfsársins 2005-6 fór fram í Íslensku óperunni í sl. fimmtudag, en framundan er spennandi og skemmtilegt ár og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Meðal þess sem verður á dagskrá Óperunnar í vetur eru óperan Tökin hert (The Turn of the Screw), frumsýning 21.október, hádegistónleikar í samstarfi við MasterCard, dansverkið VON í samstarfi við PARS PRO TOTO, Öskubuska eftir Rossini, frumsýning í febrúar 2006, Óperustúdíó, Litla hryllingsbúðin í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og málþing um Íslensku óperuna.
Í haust mun Óperan leggja áherslu á að bjóða ungu fólki góð kjör á óperusýningar en allir 25 ára og yngri fá 50% afslátt af miðum í sal á aðalverkefni Óperunnar á haustmisseri.
Óperudeigla:
Með Óperudeiglunni mun Íslenska óperan í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og fleiri skapa vettvang fyrir tilraunastarf og nýsköpun á sviði óperulistar. Gengið er út frá því að kveikjan að nýrri óperu geti komið úr ýmsum áttum og að galdurinn sem þarf til að smíða góða óperu sé sjaldnast á valdi einnar manneskju. Tilgangurinn með deiglunni er að laða áhugasama einstaklinga með ólíka sérþekkingu til samstarfs um ákveðið tilraunaferli sem með tíð og tíma kann að fæða af sér áhugaverð verk fyrir óperuhús 21. aldar. Fyrsta samkoma Óperudeiglunnar verður haldin í lok október.
Hádegistónleikar:
Hádegistónleikar Óperunnar hafa hlotið góðar viðtökur undanfarin ár og er þetta þriðja árið í röð sem farið verður af stað með hádegistónleikaröðina. Það verða haldnir tvennir tónleikar á haustmisseri og tvennir á vormisseri. Fyrstu tónleikarnir verða þann 1. nóvember og er það Hanna Dóra Sturludóttir, sópran sem stígur á stokk, ásamt Kurt Kopecky á píanó. Þann 29. nóvember er það Hlín Pétursdóttir, sópran, sem flytur aríur eftir Stravinsky, Britten og Menotti við undirleik Kurts Kopecky. Á fyrstu hádegistónleikum vormisseris eru það þau Einar Guðmundsson, baritón, og Katharina Mooslechner, sópran, sem koma fram. Þau munu flytja „Brúðkaupsdagskrá”, en þau ætla einmitt að gifta sig í janúar. Kolbeinn Ketilsson, tenór, sem kemur fram á síðustu hádegistónleikum vetrarins flytur kansónur úr suðri og norðri þ.e. sönglög frá Noregi, Svíþjóð og Ítalíu. Dagsetningar á hádegistónleikum vormisseris verða auglýstar síðar.
Eins og í fyrra eru hádegistónleikarnir haldnir í samvinnu við MasterCard. Tónleikarnir hefjast kl. 12.15 og standa yfir í um 40 mínútur.
Nánari upplýsingar um hádegistónleika haustmisseris
„Ópera lengir lífið” í Leikhúskjallaranum :
Í vetur mun Óperan leggja sitt af mörkum til dagskrár Leikhúskjallarans og fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði verður boðið upp á kvöldskemmtun sem ber yfirskriftina „Ópera lengir lífið”. Það er fræðslustjóri Óperunnar, Ingólfur Níels Árnason ,óperuleikstjóri, sem heldur utan um dagskrána fyrir Óperuna, og mun hann leggja áherslu á að blanda saman fræðilegri umfjöllun um óperur og óperulist ásamt því að skemmta fólki um leið. Ingólfur mun taka útgangspunkt í mannsröddinni sem hljóðfæri og fær hann tónlistarmenn og óperusöngvara til liðs við sig sem munu aðstoða hann við að skoða mannsröddina frá hinum ýmsu sjónarhornum. Dagskráin „Ópera lengir lífið” hefst í Leikhúskjallaranum fimmtudaginn 13. október nk., og eru allir þeir sem vilja fræðast meira um óperur og óperulist á skemmtilegan hátt hvattir til að mæta.
Málþing um framtíð Íslensku óperunnar:
Í byrjun nóvember boðar Íslenska óperan til málþings um framtíð Íslensku óperunnar. Það er einkum tvennt sem er hvatinn að þessu málþingi: Annars vegar tillaga Gunnars I. Birgirssonar bæjarstjóra um að byggja hús fyrir Íslensku óperuna á Borgarholtinu í Kópavogi, hins vegar samkeppnisniðurstöður og áætlanir um byggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar við Austurhöfn. Hvort tveggja getur haft afgerandi áhrif á framtíð Íslensku óperunnar.
Tökin hert í október:
Aðalverkefni Óperunnar á haustmisseri er óperan Tökin hert (The Turn of the Screw) eftir breska tónskáldið Benjamín Britten. Texti óperunnar er eftir Myfanwy Piper byggður á samnefndri smásögu Henry James sem kom út árið 1898. Óperan var frumsýnd í Feneyjum árið 1954 og hefur síðan þá verið sýnd reglulega í öllum helstu óperuhúsum í heimi, en þetta er í fyrsta skipti sem að Tökin hert er sett upp hér á landi. Leikstjóri er Halldór E. Laxness og hljómsveitarstjóri er Kurt Kopecky. Einsöngvarar eru: Hulda Björk Garðarsdóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Gunnar Guðbjörnsson, Hanna Dóra Sturludóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Ísak Ríkharðsson. Frumsýning 21. október.
Nánari upplýsingar um Tökin hert
25 ára og yngri : 50% afsláttur:
Síðastliðin vetur jókst fjöldi ungs fólks í áhorfendahópnum á sýningar í Íslensku óperunni. Í haust mun Óperan hvetja enn fleiri ungmenni til að sækja sýningar í Óperunni og fá allir 25 ára og yngri 50% afslátt af miðaverði í sal á aðalverkefni Óperunnar á haustmisseri 2005, Tökin hert.
PARS PRO TOTO í samstarfi við Íslensku óperuna kynnir dansverkið VON:
Í Von renna saman draumur og veruleiki í huglægum líkamsmyndum, áþreifanlegri tónlist og myndrænu flæði, innblásið af orðum Árna Ibsen rithöfundar. Dansarar eru fjórir: Hannes Egilsson sem lagt hefur stund á framhaldsnám í dansi við The Place í London, Saga Sigurðardóttir sem verið hefur í framhaldsnámi við Listdansháskólann í Arnhem í Hollandi, Vicente Sancho sem kemur frá Spáni en hans bakland er úr dansandi heimi látbragðsins og Lára Stefánsdóttir sem semur verkið og tekur jafnframt þátt í flutningi. Hún hefur undanfarið ár verið búsett í London og lagt þar stund á dansfræði og er verkið að mestu unnið þar. Enn fremur koma fram Sverrir Guðjónsson tónlistarmaður og Ingibjörg Björnsdóttir dansari og danskennari. Sviðsmynd verksins er að mestu unnin úr myndböndum en hönnuður þeirra er Kristín Eva Þórhallsdóttir. Tónlistin í verkinu er eftir Guðna Franzson en um lýsingu sér Jóhann B. Pálmason. Von er samstarfsverkefni Pars Pro Toto danskompanís og Íslensku óperunnar, stutt af Leiklistarráði Íslands. Verkið verður frumsýnt í Óperunni 20. nóvember næstkomandi og síðan flutt í London í byrjun næsta árs.
Óvenjulegir Vínartónleikar í samstarfi við Kammersvetina Ísafold undir stjórn Daníels Bjarnasonar:
Flutt verða ýmis verk sem útsett voru fyrir kammerhljómsveit af meðlimum Verein für Musikalische Privataufführungen (Félag um einkaflutning tónverka) í Vínarborg á árunum 1918 – 1921. Stofnandi félagsins og aðaldriffjöður var Arnold Schönberg, en með honum í félaginu störfuðu m.a. nokkrir áhugasömustu nemendur hans, svo sem Alban Berg og Anton Webern. Tilgangur félagsins var að brúa bilið milli nútímatónlistar og áheyrenda með vönduðum flutningi við látlausar aðstæður, enda voru tónleikar félagsins jafnan haldnir í heimahúsum. Á þriggja ára tímabili stóð félagið fyrir fjölmörgum tónleikum með verkum eftir ýmis tónskáld, m.a. Debussy, Ravel, Schriabin, Stravinsky og Zemlinsky.
Tónleikarnir fara fram í Íslensku óperunni í byrjun janúar 2006.
Öskubuska í febrúar:
Aðalverkefni Óperunnar á vormisseri 2006 er hin sígilda ópera Öskubuska (La Cenerentola) eftir Rossini, sem verður frumsýnd í febrúar. Leikstjóri er Paul Suter og hljómsveitarstjóri Kurt Kopecky. Einsöngvarar eru: Sesselja Kristjánsdóttir, Garðar Thór Cortes, Bergþór Pálsson, Davíð Ólafsson, Hlín Pétursdóttir, Anna Margrét Óskarsdóttir og Einar Guðmundsson.
Óperustúdíó:
Þriðja árið í röð stendur Íslenska óperan fyrir Óperustúdíói, þar sem að tónlistarskólanemendur á höfuðborgarsvæðinu fá tækifæri til að taka þátt í óperusýningu sem unnin er að öllu leyti eins og aðrar sýningar hússins. Reynsla síðustu tveggja ára hefur sýnt að það er mikill áhugi fyrir verkefninu bæði meðal þátttakenda sem og áhorfenda. Á síðasta ári sáu yfir 1.500 manns sýningu Óperustúdíósins á Apótekaranum eftir Haydn. Í ár verður sett upp óperettan Nótt í Feneyjum eftir Johann Strauss. Leikstjóri Óperustúdíósins í ár er ung kona frá Vín að nafni Uschi Horner. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, en umsjón með Óperustúdíóinu hefur Kurt Kopecky tónlistarstjóri Óperunnar. Íslandsbanki kemur að kostun verkefnisins annað árið í röð og styður áfram dyggilega við bakið á Óperustúdíóinu.
Listahátíð í samstarfi við Íslensku óperuna í maí 2006:
I Fagiolini – L’Amfiparnaso
I Fagiolini er ein þekktasta söngsveit Englendinga og kemur hún til landsins í vor í fyrsta skipti til að flytja okkur commedia dell’arte verkið L’Amfiparnaso eftir ítalska tónskáldið Vecchi. Í þessu stórskemmtilega tónverki hefur Vecchi tekist að lífga við dásamlega karaktera frá Feneyjum 16. aldar og eins og oftast í commedia dell’arte er plottið einfalt með óhamingjusömu pari, ráðagóðum svikahröppum og ósvífnu þjónustufólki. Atburðarásin er leikin með látbragði af grímuklæddum leikurum og tónlistin er sungin á ítalskri mállýsku frá Toskana-héraði og Feneyjum. Hver sena er kynnt með stuttum og skemmtilegum inngangi sem enginn annar en breski stórleikarinn Simon Callow flytur. Tónlistarstjóri: Robert Hollingworth.
Litla hryllingsbúðin í samvinnu við LA í vor:
Litla hryllingsbúðin, söngleikur eftir Howard Ashman og Alan Menken verður frumsýndur hjá Leikfélagi Akureyrar í febrúar í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Á vordögum munu svo félagar í LA leggja land undir fót og verður sýningin sett upp í Íslensku óperunni í maí.
Allar nánari upplýsingar um einstök verkefni og dagsetningar birtast á vef Íslensku óperunnar jafnóðum og þær berast.