"Leiksýningar undir berum himni hafa yfir sér sérstakan blæ. […] Aldrei er hægt að vita hvenær miðaldra hjón eða kjarnafjölskylda á skemmtigöngu birtast skyndilega á milli trjánna og horfa yfir sig hissa á Konstantín Tréplév deila við Írínu móður sína eða Trígorín daðra við Nínu."
Útsendari okkar fór á sýningu á Máfnum hjá Leikfélaginu Sýnum í Elliðaárdal á laugardag. Lesið hvað honum fannst.
Leikfélagið Sýnir
Máfurinn
eftir Anton Tsjekoff
Leikstjóri Guðjón Þorsteinn Pálmarsson
Frumsýnt í Elliðaárdal 29. júlí, 2006
Leiksýningar undir berum himni hafa yfir sér sérstakan blæ. Að einhverju leyti er eins og það sé frelsandi að hafa ekki manngerða veggi yfir, undir og allt um kring eins og þar segir. Fjórði veggurinn svokallaði, sá ósýnilegi sem áhorfendur horfa í gegnum, á það einnig til að vera allt um kring, sérstaklega þegar sýnt er á fjölförnum stað eins og Elliðaárdalurinn er. Aldrei er hægt að vita hvenær miðaldra hjón eða kjarnafjölskylda á skemmtigöngu birtast skyndilega á milli trjánna og horfa yfir sig hissa á Konstantín Tréplév deila við Írínu móður sína eða Trígorín daðra við Nínu.
Að þessu leyti var það kannski við hæfi að sjá sýningu á borð við þá sem Leikfélagið Sýnir frumsýndi í Elliðaárdalnum sunnudaginn 29. júlí. Hreintrúarmenn í Tsjekoff hafa vafalaust átt erfiðan dag í rjóðrinu en þeir virtust fáir ef nokkrir meðal áhorfenda sem virtust í það heila skemmta sér ágætlega meðan á sýningunni stóð. Aðstandendur Máfsins í Elliðaárdal nálgast þetta klassíska verk af töluverðu alvöruleysi og eru að eigin sögn alsendis óhræddir við að nota ódýrar leiðir til að framkalla bros. Sá tónninn var enda gefinn áður en sýningin hófst þar sem áhorfendur skemmtu sér konunglega yfir uppátækjum vinnumannanna. Þeir tvímenningar í meðförum Arnars Ingvarssonar og Harðar Skúla Daníelssonar voru hálfgert leikrit í leikritinu og gerðu sín kómísku stykki vel, á lágstemmdan og vel útfærðan hátt án þess að nokkursstaðar gætti senuþjófnaðar.
Þegar hin eiginlega sýning hófst varð fljótt ljóst að hér var ekki sá Tsjekoff á ferðinni sem flestir kannast við. Gamanleikur er yfirskrift höfundar að verkinu og leikstjóri tekur þá ákvörðun að skilja það ekki sem kaldhæðni af höfundar hálfu heldur setja leikritið upp sem slíkt. Kómískar senur af ýmsu tagi eru því fyrirferðarmiklar, nútímaleg textainnskot nokkuð tíð og einfalt "slapstick" alls ekki fyrir neðan virðingu hópsins. Margt af því var lika vel gert og áhorfendur kættust oft yfir því sem fram fór.
Í þessari nálgun fer þó ekki hjá því að hinn dramatíski þáttur líði nokkuð fyrir. Máfurinn er sterkt, dramatískt verk mikilla tilfinninga og persónulegra átaka þar sem persónurnar segja þó sjaldnast beint út það sem þeim í brjósti býr eins og höfundar var siður. Persónurnar og samskipti þeirra ná aldrei dýpt að ráði í þessari uppfærslu Leikfélagsins Sýna og hin dramatíska framvinda og þróun persóna verður að aukaatriði í heildarmyndinni. Fyrir þá áhorfendur sem ekki þekktu verkið fyrir, hlýtur enda æði margt að hafa verið lítt ef ekki óskiljanlegt. Sem lítið dæmi er undirrituðum til efs að þeir sem ekki þekktu til hafi áttað sig á ást Mösju á Konstantín. Hegðun hennar varð fyrir vikið ótengd nokkru því sem fram fór og stóð að mestu sem tilefni til að framkalla hlátur.
Þessi nálgun hjálpar heldur ekki leikurunum í sinni vinnu og gerðu þeim vafalaust erfiðara fyrir en ella í persónusköpuninni. Flestir stóðu sig með ágætum og sumir sérlega vel. Þar má m.a. nefna Rúnar Lund í hlutverki Soríns, Halldór Magnússon sem Trígorín og Ármann Guðmundsson í hutverki Dorn læknis. Aldís Davíðsdóttir var einnig trúverðug í hlutverki hinnar saklausu Nínu en eilítið vantaði upp á að sýna þá breytingu sem orðið hefur á Nínu í lokin. Júlía Hannam og Guðmundur L. Þorvaldsson gerðu ágætlega í hlutverki mæðginanna Írínu og Konstantíns en gjarnan hefði þó mátt leggja meiri vinnu í samband þeirra. Flautukvartettinn stóð sig einnig með miklum ágætum sérstaklega þegar leikrit Konstantíns var flutt í upphafi.
Undirritaður aðhyllist ekki hreintrúarstefnu í flutningi leikverka og sér ekkert athugavert við að nálgast þau eftir óhefðbundnum leiðum. Í því samhengi skiptir þó máli að skýr hugsun sé að baki og að leikhópurinn hafi ákveðna heildarsýn í öllu sköpunarferlinu. Það gengur ekki alveg upp í þessari sýningu. Þegar kómíkinni er gert svo hátt undir höfði sem raun ber vitni virkar hún ekki lengur sem mótvægi við dramað heldur tekur einfaldlega völdin og litar allt sem fram fer. Slíkt væri í sjálfu sér í besta lagi ef skrefið hefði þá einfaldlega verið tekið til fulls og gamanið algerlega látið ráða ríkjum. Í raun má því segja að helsti galli sýningarinnar sé að of skammt sé gengið.
Umgjörð sýningarinnar var góð enda að mestu á ábyrgð æðri máttarvalda. Búningar og leikmunir voru vel unnir og við hæfi og leikskrá afar smekkleg. Máfurinn í Elliðaárdalnum er þrátt fyrir allt sem á undan er ritað góð skemmtun og þeir sem ekki (eða sjaldan) hafa upplifað leiksýningu undir berum himni ættu að nýta sér tækifærið sem hér gefst.