Leikfélag Kópavogs frumsýnir Þjófa og lík, tvo einþáttunga eftir Dario Fo, sunnudaginn 30. október. Leikþættirnir eru Lík til sölu í leikstjórn Arnar Alexanderssonar og Betri er þjófur í húsi en snurða á þræði í leikstjórn Sigrúnar Tryggvadóttur.
Nóbelsskáldið Dario Fo þarf vart að kynna enda hafa leikverk hans notið mikillar hylli hérlendis í gegnum tíðina. Spilling valdsins er rauður þráður í mörgum verka Dario Fo. Þau einkennast af bítandi húmor í garð valdhafa, hvort sem það er lögreglan, kaþólska kirkjan eða stjórnmálamenn. Þau eru einnig innblásin af ítaslksri leikhúshefð ekki síst Commedia dell’arte. Alls taka 13 leikarar þátt í sýningunum sem verða á sviðinu í Leikhúsinu að Funalind 2 í Kópavogi frameftir nóvember. Leikmynd og búningar eru í höndum Maríu Bjartar Ármannsdóttur, Hjördís Zebitz sér um lýsingu og Hörður Sigurðarson um hljóð. Sýningarstjórar eru Petra Ísold og Anna Margrét Pálsdóttir
Nánari upplýsingar um sýninguna eru hér og miðasala er á vef félagsins kopleik.is hér.