Í samstarfi við Leikfélag Akureyrar verður leikverkið Súldarsker eftir Sölku Guðmundsdóttur sýnt í Rýminu á Akureyri 16. og 17. mars næstkomandi. Þessi bráðskemmtilega sýning sló rækilega í gegn þegar hún var frumsýnd í fyrra og hlaut mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda. Meðal annars var sýningin tilnefnd til tvennra Grímuverðlauna. Í kjölfarið verður Súldarsker einnig sýnt nokkrum sinnum í Tjarnarbíói en sýningin hætti þar fyrir fullu húsi í fyrra.
Tveimur aðkomukonum skolar upp á hið grámyglulega Súldarsker í ólíkum erindagjörðum. Koma þeirra setur samfélagið úr skorðum og hrindir af stað æsispennandi atburðarás þar sem við sögu koma gamlir vitaverðir, bæjarhátíðin Hryssingsdagar, árásargjarnir mávar, krullumót í félagsheimilinu og síðast en ekki síst leyndardómar hinnar ógangsettu kassettuverksmiðju sem gnæfir yfir samfélaginu. Þær Aðalbjörg Árnadóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir fara með öll hlutverkin í sýningunni sem alls eru tæplega tuttugu talsins, en auk þeirra kemur tónlistarmaðurinn Ólafur Björn Ólafsson fram í Súldarskeri. Leikhúskonan fjölhæfa Harpa Arnardóttir leikstýrði verkinu.
Miða á sýningarnar í Rýminu má nálgast á leikfelag.is, midasala@leikfelag.is eða í síma 4600200. Miða á sýningarnar í Tjarnarbíói má finna á midi.is
{mos_fb_discuss:2}