Magnús Þór Jónsson brá sér á sýningu hjá Leikfélagi Ólafsvíkur á leikritinu Taktu lagið Lóa og stóðst ekki mátið að skrifa um upplifun sína af sýningunni:

Síðastliðið föstudagskvöld frumsýndi Leikfélag Ólafsvíkur leikritið Taktu lagið Lóa í Félagsheimilinu Klifi. Verkið er eftir Jim Cartwright en er í leikstjórn Gunnsteins Sigurðssonar.

Í stuttu máli sagt má lýsa leikritinu sem útgáfu af Öskubusku. Aðalsöguhetjur eru ung, afar einræn stúlka með þann einstaka hæfileika að geta hermt eftir þekktum söngvurum og svo fólk sem vill nýta þennan hæfileika hennar í sína þágu.

Hún býr ein hjá drykkfeldri móður sem skilur dóttur sína engan veginn og virðist líta á hana sem þjónustustúlku fyrir sig, sem best er að hirta með því að hreyta í hana ónotum. Faðirinn er látinn, en skildi eftir sig plötusafn með merkum söngdívum sem Lóa tekur ástfóstri við, í mikilli óþökk móðurinnar.

Einn daginn dregur móðirin svo heim með sér afar óheppinn veðlánara sem vill verða umboðsmaður fræga fólksins, Ragga að nafni. Rýkur sá til og fer í samstarf með vafasömum klúbbeiganda til að gera Lóu að stjörnunni sinni.

Atburðarás leikritsins lýsir svo því hvað gengur á í lífi þessa ógæfufólks í framhaldinu. Inn í þá atburðarás fléttast einfeldningurinn Sæmi, sem verður ástfanginn af Lóu þegar hann tengir síma á heimilinu og vill ekkert frekar en að ná henni út af því til að hún geti orðið hún sjálf.

Jim Cartwright hefur náð talsverðum tökum á því að skrifa um slíkar persónur. Ráðalítið ógæfufólk, drykkfellda lágstétt sem er bitur af lífsreynslu og á sér drauma um betri tíð. Í leikritinu veltir höfundur sér upp úr hlutskipti persónanna, sem er eilítið einsleitt. Í Taktu lagið Lóa stendur og fellur útkoman með persónusköpun og túlkun leikaranna.

Lykilatriði er að Lóa sé leikin af góðri söngkonu og Guðrún Lára Pálmadóttir er það. Hún nær líka góðum tökum á persónunni. Einfaldri stúlku sem saknar pabba síns mikið og vill helst fá að vera ein með plötunum sínum. Mamman, Malla Koff, er eitt andstyggilegasta kvenskrímsli sem hægt er að finna í leikverki. Bitur, orðljót, hreinlega eitruð kona sem veður yfir allt og alla í beiskri reiði yfir örlögum sínum. Hún ætlaði sér meira út úr lífinu og tekur það út á Lóu. G. Sirrý Gunnarsdóttir á stjörnuleik í hlutverki Möllu, á köflum var manni hreinlega illt að fylgjast með vonskunni sem birtist í henni á sviðinu. Ekki síst þegar nágrannakonan Siddý, vel leikin af Olgu Guðrúnu Gunnarsdóttur, var í heimsókn hjá mæðgunum. Siddý er enn einn einfeldningurinn, ólæs og óheppin í útliti, lifir lífinu í raun gegnum sjúskaða tilveru Möllu. Hápunktar sýningarinnar eru án vafa þegar þessar þrjár eru á sviðinu. Þar nær textinn hæstu hæðum og leikkonurnar þrjár ná vel saman. Kannski mættu samskipti Lóu og móðurinnar verða aðeins sterkari og áherslan verða meiri á neikvæðnina í samskiptum þeirra. Á kostnað þess hve grátbrosleg, stundum fyndin, þessi yfirgengilega andstyggilega hegðun móðurinnar gagnvart hinum tveim er.

Önnur hlutverk falla eilítið í skuggann. Leikritið er skrifað með áherslu á þessar kvenpersónur. Raggi, leikinn af Gústaf G. Egilssyni og herra Bú, leikinn af Guðbirni Ásgeirssyni, eru vel túlkaðir sem hæfileikasnauðir menn sem eru að reyna að auðgast á annarra hæfileikum. Þar fara greinilega reynslumiklir leikarar, þó einstaka sinnum hafi þeir flutt texta sinn of óskýrt. Sæmi er einnig vel leikinn af Ara Bjarnasyni. Barnssál sem elskar Lóu eins og hún er, upptekinn af því að fá að búa til ljósasýningu fyrir ball hjá eldri borgurum. Persónan er afar trúverðug í flutningi Ara, ekki síst þar sem hann nær fram raddbrigðum sem einhvern veginn bara setja punktinn yfir i-ið. Samstarfsmaður hans hjá símafyrirtækinu birtist stuttlega og er trúverðugur í túlkun Sæþórs Gunnarssonar.

Leikstjórinn, Gunnsteinn Sigurðsson, má vera stoltur af útkomunni. Mikið öryggi í texta hjá leikurunum allan tímann og mikill leikur fer fram án orða í sýningunni og er vel gert þar einnig. Hann velur þá leið að leggja áherslu á grátbrosleik aðstæðna fólksins og tekst það vel. Vissulega væri hægt að gera meira úr tragedíunni, en andi sýningarinnar hjá honum er hinn grátbroslegi og sýningin er trú þeim anda allan tímann.

Sýningin er öll fagmannlega unnin. Leikmynd afar vel heppnuð og möguleikar leikhússins nýttir til fullnustu. Búningar vel heppnaðir og ljósahönnun og útfærsla þeirra gefur verkinu líka afar mikinn styrk og er ástæða til að hrósa fagmennsku fólksins á bakvið sýninguna!

Taktu lagið Lóa
í uppfærslu Leikfélags Ólafsvíkur er vel unnið leikverk og vandvirknislega sviðsett af metnaði og kunnáttu þeirra sem að sýningunni koma. Full ástæða er að skora á fólk að líta í Félagsheimilið Klif og fylgjast með skrautlegu heimilislífi og hlusta á fallegan söng!

Magnús Þór Jónsson,
áður birt í Skessuhorni 14. janúar 2009.

Birt með leyfi höfundar.