Hundur í óskilum er skipuð þeim Eiríki Þ. Stephensen og Hjörleifi Hjartarsyni. Í Sögu þjóðar hafa þeir fengið Benedikt Erlingsson leikstjóra sér til aðstoðar. Þeir félagarnir hafa áður unnið með Benedikt þegar þeir sömdu og fluttu músík í Íslandsklukkunni í Þjóðleikhúsinu og hlutu Grímuna fyrir.
Benedikt Erlingsson hefur samið einn eða með öðrum fjölda leikverka, mörg hver sagnfræðilegs eðlis – má þar nefna Ormstunga – ástarsaga, Jesús litli og Mr. Skallagrímsson sem allar hafa notið mikilla vinsælda og unnið til verðlauna. Hér er á ferðinni stórskemmtileg sýning með ferskri sýn á Íslandssöguna, þar sem Hundur í óskilum fer á kostum. Sýningin er samstarfsverkefni Hunds í óskilum, Leikfélags Akureyrar og Borgarleikhússins og var frumsýnd norðan heiða fyrr á þessu leikári.
Hljómsveitin Hundur í óskilum var stofnuð um miðjan níunda ártuginn og hefur starfað saman lengur en Bítlarnir. Sveitin hefur á ferli sínum spilað á fjölmörgum árshátíðum banka og fjármálastofnanna og lagt þannig sitt að mörkum til íslenska bankahrunsins. Hún tók af fullri einurð þátt í útrásinni og var fyrst íslenskra sveita til að spila í Royal Albert Hall þegar hún hitaði upp fyrir Stuðmenn á alræmdum tónleikum á meðan allt lék í lyndi í íslensku efnahagslífi. Sveitin hefur sent frá sér tvær hljómplötur: Hundur í óskilum og Hundur í óskilum snýr aftur.
Sveitin er skipuð þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki Stephensen. Hjörleifur Hjartarson er tónmenntakennari að mennt og hefur fengist jöfnum höndum við tónlist og skriftir um árabil. Hann söng með Tjarnarkvartettinum sem gaf út fjóra hljómdiska á sínum ferli, hefur skrifað nokkur leikrit sem sýnd hafa verið hjá áhugafélögum norðan heiða og samið leikhústónlist fyrir eigin verk og annarra. Eiríki Stephensen er menntaður blásarakennari og tónfræðingur. Hann starfar sem skólastjóri Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hundur í óskilum hlaut Grímuverðlaunin 2010 fyrir tónlist í uppfærslu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni í leikstjórn Benedikts Erlingssonar.
Leikmynd hönnuðu Dýri Bjarnar Hreiðarsson og Benedikt Erlingsson, búninga Íris Ólöf Sigurjónsdóttir og lýsingu Gunnar Sigurbjörnsson.
{mos_fb_discuss:2}