Í gærkvöldi, sunnudaginn 27. apríl, var leikritið Rjúkandi ráð frumsýnt hjá Leikfélagi Sauðárkróks.
Verkið var áður sýnt á Sauðárkróki fyrir 27 árum, en Leikfélag Sauðárkróks sýndi fyrst verk eftir þá Jónas Árnason og Stefán Jónsson, með þekktum söngdönsum Jóns Múla Árnasonar árið 1969 og var það Allra meina bót. Næst var Delerium Búbónis sýnt árið 1983. Á árunum 1987-1990 sýndi félagið fjögur verk eftir þá bræður, Rjúkandi ráð, Okkar maður, Allra meina bót og Í sal hans hátignar, sem var samantekt í leikgerð Sigurgeirs Scheving og frumflutt af félaginu. Sigurgeir leikstýrði þessum fjórum uppsetningum. 24 árum seinna sýnir félagið nú Rjúkandi ráð.
Í þessum gamanleik, sem stundum hefur verið kallaður smákrimmaóperetta, fáum við að kynnast Stefáni Þ. Jónssyni veitingamanni og lánveitanda, en hann rekur veitingahúsið Stebbakaffi. Hann leggur á ýmis ráð til að græða peninga og verða áhorfendur vitni að fegurðasamkeppni, bruna og tryggingarsvindli. Inní þetta flettast þekktir söngdansar Jóns Múla Árnasonar.
12 leikarar bregða sér í gervi lögregluþjóna, smáglæpona og fegurðadísa en alls koma um 25 manns að uppsetningunni. Leikstjóri er Jóel Ingi Sæmundsson.
Sýnt er í félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki og er sýningarplanið eftirfarandi:
2. sýning þriðjudag 29/4 kl. 20
3. sýning miðvikudag 30/4 kl. 20
4. sýning föstudag 2/5 kl. 23 (miðnætursýning)
5. sýning laugardag 3/5 kl. 17
6. sýning sunnudag 4/5 kl. 20
7. sýning miðvikudag 7/5 kl. 20
8. sýning laugardag 10/5 kl. 16 uppseld fyrir félag eldri borgara
9. sýning sunnudag 11/5 kl. 20 (lokasýning)
Miðasala er opin frá 16-20 virka daga og einnig 40 mínútur fyrir sýningu og þá bæði í síma og í Bifröst. Miðasölusíminn 8499434
Miðaverð: 2500 kr
Miðaverð fyrir hópa (10 eða fleiri), eldri borgara og öryrkja : 2200 kr