Dúfurnar eftir David Gieslemann í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur verður frumsýnt á Nýja sviðinu laugardaginn 10. apríl. Höfundurinn verður viðstaddur frumsýninguna í Borgarleikhúsinu. Er þetta önnur heimsókn Gieselmanns til landsins en fyrri heimsókn hans var í tengslum við frumsýningu á verki hans Herra Kolbert sem Leikfélag Akureyrar sýndi árið 2006. Herra Kolbert hefur farið sigurför um heiminn og verið sett upp beggja vegna Atlandshafsins við gríðarlega góðar undirtektir.

David Gieselmann er fæddur í Köln í Þýskalandi árið 1972. Hann stundaði nám í leikritun við Listaháskólann í Berlín á árunum 1994 til 1998. Honum var boðið að starfa í Royal Court-leikhúsinu í London árið 1999 og hann tók þátt í kynningu nýrra þýskra leikrita í sama leikhúsi ári síðar.

Dúfurnar  var verðlaunað sem besta nýja gamanleikritið í Þýskalandi á síðasta ári og er ferðalag þess um leikhúsheiminn rétt að hefjast.  Dúfurnar er kolsvartur gamanleikur um mannshvarf. Verkið hefst í jólaboði lítils fyrirtækis þar sem forstjórinn leggur á ráðin um eigið hvarf, „Ég vil burt héðan.“ er fyrsta setning verksins sem síðan snýst um hvarf eða ekki-hvarf forstjórans og hvernig það hefur áhrif á líf þeirra persóna sem standa honum næstar. Sálfræðingur flækist inn í líf persónanna en hann sjálfur er svo flæktur í eigin vitleysu að hann man ekki nöfn sjúklinga sinna. Verkið er kryddað gítarleik Vilhelms Antons Jónssonar og söng leikaranna sem hver um sig taka eitt lag. Átta leikarar taka þátt í sýningunni og eru þau á sviðinu frá upphafi til enda. Mikill spenningur fyrir verkinu hófst snemma í haust og nú þegar eru uppseldar 18 sýningar. 

Leikstjóri er Kristín Eysteinsdóttir, leikmynd og búningar eru í höndum Ilmar Stefánsdóttur, lýsing: Þórður Orri Pétursson, tónlist Vilhelm Anton Jónsson.

Leikarar eru: Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Jörundur Ragnarsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Halldór Gylfason, Sigurður Sigurjónsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir og Nína Dögg Filippusdóttir

{mos_fb_discuss:2}