Þann 14. janúar frumsýnir leikhópurinn Brilljantín einleik eftir Halldóru Malin Pétursdóttur á efri hæð Austurbæjar í Silfurtunglinu. Verkið sem er samstarfsverkefni ÍsMedía í Austurbæ og leikhópsins Brilljantín verður aðeins sýnt í viku.

Verkinu hefur verið boðið í leikferð um Króatíu og Slóveníu í febrúar næstkomandi.

Power of Love, hið fullkomna deit, fjallar um konu sem er að undirbúa mikilvægasta kvöld lífs síns. Þetta kvöld ætlar hún að finna ástina og lifa hamingjusöm til æviloka.
Til þess að ekkert fari úrskeiðis skipuleggur hún allt út í þaula. Allt verður að vera fullkomið þegar herrann mætir á svæðið. Hún verður að vera fullkomin.
En myndi það flokkast undir ófullkomleika að kunna ekki að elda, að finnast leiðinlegt að þrífa, að mála sig ekki, ganga ekki á háum hælum, kunna ekki að steppa, að vera með svakalega táfóbíu og að ruglast algerlega í rýminu við athygli karlmanna? Það verður hún að sannreyna vegna þess að hún hefur aldrei treyst sér á stefnumót fyrr en þetta örlagaríka kvöld sem áhorfendur fá að fylgjast með.
Stefnumótið er að byrja og hún hefur aðeins hálftíma til að gera allt tilbúið því við vitum að hin fullkomna kona er snillingur sem veit allt, getur allt og er allt.

Halldóra Malin Pétursdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2006 með B.F.A. í leiklist. Síðan þá hefur hún m. a. sett upp einleik á Borgafyrði eystra, stofnað leikfélagið Frú Normu á Egilsstöðum sem er eitt af tveimur atvinnuleikhúsum á landsbyggðinni, utan Akureyrar, auk þess sem hún vann til tvennra verðlauna í dansleikhússamkeppni Borgarleikhússins vorið 2006, fyrir verkið Tommi og Jenni. Nýverið stofnaði Halldóra Malin leikhópinn Brilljantín og er Power of Love fyrsta verkefni þess leikhóps.

Frumsýning Sun 14. janúar kl. 20
Mið 17. janúar kl. 20
Fim 18. janúar kl. 20
Fös 19. janúar kl. 20
Lau 20. janúar kl. 20
Sun 21. janúar kl. 20

Miðasala er í Austurbæ frá 13:00-17:00 og í síma 5514700, einnig er hægt
að nálgast miða á midi.is. Miðaverð er kr. 1500