Þriðjudaginn 1. nóvember kl 13 verður opinn samlestur á verkinu Ræman eftir Annie Baker. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni. Allir velkomnir og heitt kaffi á könnunni.
Þrír starfsmenn í gömlu „költ“-bíói sópa gólfin, selja miða og sjá um að kveikja á kvikmyndavélinni fyrir sýningar. Launin eru lág, andrúmsloftið rafmagnað og samskiptin á milli þeirra endurspegla kaldranalegan veruleika. En hvert og eitt ala þau með sér draum um betra líf og oft getur raunveruleikinn skákað heimi kvikmyndanna all hressilega.
Ræman er einstaklega vel skrifað og hjartnæmt leikrit eftir ungt bandarískt leikskáld sem hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og í Evrópu. Höfundurinn, hin 34 ára Annie Baker, hlaut bandarísku Pulitzer-verðlaun fyrir besta leikritið árið 2014.
Aðstandendur Höfundur: Annie Baker | Þýðing | Halldór Halldórsson (Dóri DNA) | leikstjóri: Dóra Jóhannsdóttir | Leikmynd & búningar: Helga I. Stefánsdóttir | Lýsing: Þórður Orri Pétursson | Hljóð: Garðar Borgþórsson | Leikarar: Kristín Þóra Haraldsdóttir, Davíð Þór Katrínarson og Hjörtur Jóhann Jónsson.