Frá hönnunar- og arkitektúrdeild verða sýnd veggspjöld, bókahönnun og leturhönnun úr grafískri hönnun. Fatahönnunarnemar sýna fatnað, tískuteikningar og upptökur af tískusýningum. Nemendur í vöruhönnun sýna teikningar, þrívíð módel og frumgerðir og arkitektúrnemar kynna rannsóknarverkefni sín. KRADS arkitektar verða með opna vinnustofu sem þeir hafa þróað í samstarfi við LEGO en þar er sköpunargleðinni gefinn laus taumur og nemendur nota LEGO kubba til að koma hugmyndum sínum til skila.
Nemendur úr myndlistardeild verða með leiðsögn um húsið og vinnustofur þar sem skoða má vinnu nemenda. Lifandi tónlist verður í boði tónlistardeildar þar sem nemendur munu meðal annars flytja tónverk eftir Mendelssohn, Schubert, Moszkowski, Mozart o.fl. Nemendur á leikarabraut og samtímadansbraut verða með kynningardagskrá á klukkutíma fresti. Sýnd verða vídeó og ljósmyndir úr náminu og Nemendaleikhúsið gefur innsýn í vinnu við uppfærsluna Jarðskjálfta í London eftir Mike Bartlett sem frumsýnt verður í byrjun desember. Nemendur og kennarar í listkennsludeild taka á móti gestum og kynna meistaranám í listkennslu.
Opinn dagur er kjörinn vettvangur fyrir áhugasama að kynna sér starfsemi skólans, sérstaklega þá sem hyggja á nám í listgreinum eða listkennslu. Nánari dagskrá má finna á vefsíðu skólans lhi.is. Allir velkomnir.
{mos_fb_discuss:3}