Leikfélag Kópavogs stendur fyrir opnu námskeiði í leiklist nú í september. Í kjölfar námskeiðsins hefjast síðan æfingar á stuttum leikþáttum sem verða frumsýndir í lok október. Námskeiðið er aðallega ætlað þeim sem hafa litla eða enga reynslu af leiklist en er þó opið öllum áhugasömum. Stjórnandi er Hörður Sigurðarson. Námskeiðið  er í þremur hlutum og hefst þriðjudaginn 14. september kl. 19.30 í Leikhúsinu við Funalind 2.
Næstu skipti verða síðan fimmtudag 16. sept. á sama tíma og laugardag 18. sept. kl. 10.30. Lengd hvers hluta er ca. 3 klst. Farið verður í ýmis grunnatriði í leiklist og þátttakendur fá að spreyta sig á leiksviðinu í ýmsu samhengi. Leiðbeinandinn, Hörður Sigurðarson hefur langa reynslu í leiklistarstarfi og hefur leikstýrt fjölda leiksýninga víða um land en þó aðallega hjá Leikfélagi Kópavogs.
Áhugasamir sendi póst á lk@kopleik.is með upplýsingum um nafn, netfang og síma og fá senda staðfestingu um skráningu um hæl.
Nánai upplýsingar um Leikfélagið og starfsemi þess má fá á www.kopleik.is þar sem einnig er hægt að skrá sig á póstlista félagsins.