Dagana 18.-21. nk. júlí heldur Hrefna Lind Lárusdóttir námskeið í physísku leikhúsi í leikhúsinu Frystiklefanum á Rifi, Snæfellsnesi. Á þessu námskeiði er unnið með leiktækni Jerzy Grotowski og raddþjálfun sem byggir á hugmyndum Roy Harts. Viðfangsefnið verður draumar og þrár og verða undirmeðvitundin og draumar skoðuð í gegnum líkamstjáningu og rödd.

Þátttakendur verða beðnir um að beina athygli sinni að draumum sínum og halda litla draumadagbók sem undirbúning fyrir námskeiðið. Unnið verður með spuna til að framkalla ómeðvitaðar myndir sem birtast í undirmeðvitundinni.

Áhugasamir listamenn, hvort sem það eru myndlista-, sviðslista- eda tónlistarfólk geta sótt námskeiðið. Þessi vinnustofa gengur út á tilraunamennsku þar sem reynt er að afhjúpa sjálfið, varpa fram spurningum og búa til lífsreynslu sem dansar á mörkum listgreina.

Námskeiðið er haldið í leikhúsinu Frystiklefanum á Rifi og boðið er upp a gistingu (kojur og bedda). Námskeiðsgjald er 10.000 kr. og stendur straum af húsnæðinu. Nanari upplýsingar og skráning er á netfanginu hrefnasmunk@gmail.com. Takmarkaður fjöldi.

Námskeiðið er hluti af lokaverkefni Hrefnu Lindar til meistaranáms í sviðslistum. Hrefna er að ljúka námi við Naropa University í Colarado og mun hún einnig miðla vinnuaðferðum sem hún hefur lært á leiklistarbóndabænum Double Edge theater þar sem hún hefur dvalið síðustu tvö sumur.