Auglýst eftir íslenskum leiksýningum
Bandalag íslenskra leikfélaga skipuleggur leiklistarhátíð áhugaleikhópa í samvinnu við Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðið, NEATA, Norræna menningarsjóðinn, Menntamálaráðuneytið, Akureyrarbæ og Menningarhúsið Hof.
Bandalagið býður einni leiksýningu frá hverju landi; Danmörku, Eistlandi, Færeyjum, Finnlandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð og einu Mið-Evrópulandi ásamt tveimur til þremur íslenskum sýningum.
Hátíðin verður sett að kvöldi þriðjudagsins 10. ágúst og brottför er sunnudaginn 15. ágúst.
Allar leiksýningar og aðrir viðburðir hátíðarinnar verða í Menningarhúsinu Hofi.
Verndari hátíðarinnar er forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson.
Leiksýningarnar:
Þema hátíðarinnar er Maður – Náttúra og einkunnarorðin eru Af hjartans list
Hátíðin beinir sjónum að manneskjunni og samskiptum hennar við náttúruna, bæði hvað varðar óblíð náttúruöflin og mannlega náttúru; eilífa baráttu við hatur, ástríður, fordóma og svo mætti lengi telja.
Tímalengd sýninga má ekki fara yfir 90 mínútur.
Umsóknarferli:
Skila skal umsóknum með myndbandsupptökum (DVD) til Bandalags ísl. leikfélaga fyrir 15. febrúar. Ekki þarf að útfylla sérstök eyðublöð á þessu stigi, þó þarf að taka fram skriflega hver sækir um, með hvaða verk og tímalengd þess, eftir hvaða höfund og hve margir taka þátt. Valnefnd mun síðan fá upptökurnar til skoðunar og velja 2–3 sýningar sem sýndar verða á hátíðinni. Sýningarnar sem valdar verða þurfa þá strax að skila inn efni í leikskrá og frekari upplýsingum um þátttakendur, komu og brottför ásamt þörf á sviðs- og tæknibúnaði. Tilkynnt verður um val á öllum sýningum hátíðarinnar í byrjun marsmánaðar.
Kostnaður:
Bandalag ísl. leikfélaga býður öllum leikhópunum sem senda sýningar á hátíðina frítt fæði og húsnæði fyrir allt að 10 manns á meðan á hátíðinni stendur. Fjármögnun hátíðarinnar er ekki lokið en vonast er til að nægt fjármagn safnist svo ekki þurfi að gera upp á milli íslensku og erlendu leikhópanna hvað þetta varðar. Ef illa gengur er möguleiki á að íslensku hóparnir sofi á dýnum í skólastofum eða eitthvað álíka í stað þess að búa á gistiheimilum. En við vonum það besta ..
Allir þátttakendur greiða sjálfir sinn ferðakostnað.
Dagskrá:
Opnunarhátíð, 11-12 leiksýningar, 3 leiksmiðjur, gagnrýni á sýningarnar, hátíðarklúbbur, skoðunarferð, lokahóf og margt fleira skemmtilegt með áhugaleikhúsfólki frá 10 löndum.