Föstudaginn 15. janúar kl. 20 verður frumsýnt á Stóra sviðinu ný leikgerð á hinu sígilda verki Faust en fá verk hafa oftar verið endurskrifuð. Í hinni nýju leikgerð fer höfundahópurinn sínum höndum um þessa sígildu sögu og setja hana í  ferskan búning líkt og þau eru þekkt fyrir. Leikrýmið er óvenjulegt því fyrir utan að leika á hinu hefðbundna leiksviði er leikurinn dreginn upp í háloftin yfir áhorfendasalnum. Leikstjórinn Gísli Örn Garðarsson nýtir sem fyrr reynslu sína úr fimleikum til að bæta nýrri vídd inn í leikhúsið.

Það er úrvals leikhópur í sýningunni og stendur þar hæst endurkoma Þorsteins Gunnarssonar á svið Borgarleikhússins en hann fer með hlutverk öldungsins Faust en meðal annarra leikara eru Hilmir Snær Guðnason, Björn Hlynur Haraldsson og Unnur Ösp Stefánsdóttir sem leikur hina undurfögru Grétu. Tónlist semja þeir Nick Cave og Warren Ellis. Þetta er fimmta sýningin sem Borgarleikhúsið og Vesturport vinna saman, en áður hafa Rómeó og Júlía, Ást, Woyzeck og Kommúnan sviðsett í Borgarleikhúsinu. Þessi samvinna hefur borið ríkulegan ávöxt og sýningarnar ferðast víða um heim og hlotið mikið lof.

Faust er kominn á efri ár þegar hann uppgötvar að hamingjan verður ekki höndluð með lestri bóka eingöngu. Mefistó freistar hans og segist geta kynnt hann fyrir sannri hamingju í hinu ljúfa lífi skemmtunar og nautna. Faust tekur boðinu og handsalar veðmálið; finni hann hamingjuna undir handleiðslu Mefistós, þá eignast djöfullinn sál hans. Veðmálið verður þó fyrst tvísýnt þegar Faust kynnist hinni hreinu, saklausu Grétu sem er dregin inn í eilífa baráttu góðs og ills.

Magnað verk um öflin sem takast á í manninum og heiminum, um hreina ást, sanna hamingju og eilífa leit. Sagan af Faust er aldagömul enda hefur fjöldinn allur af útgáfum verið sviðsettur, kvikmyndaður og sunginn. Þekktust er líklega leikrit Goethe. Aðrar útgáfur eru t.d. leikrit eftir Christopher Marlow og skáldsögur Thomas Mann, Doktor Faustus og Mikhail Bulgakov, Meistarinn og Margaríta. Fjörtíu ár eru síðan sagan um Faust fór síðast á leiksvið á Íslandi og því tímabært að nýjar kynslóðir fái að kynnast þessari mögnuðu sögu.

Höfundar eru Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Víkingur Kristjánsson og Carl Grose – Innblásið af samnefndu leikriti Johanns Wolfgangs von Goethe.
Leikstjóri: Gísli Örn Garðarsson.
Búningar: Filippía I. Elísdóttir.
Leikmynd: Axel Hallkell Jóhannesson.
Lýsing: Þórður Orri Pétursson.
Tónlist: Nick Cave og Warren Ellis.
Tónlistarstjóri: Frank Hall.
Hljóðmynd: Thorbjoern Knudsen.
Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Leikarar: Þorsteinn Gunnarsson, Hilmir Snær Guðnason, Björn Hlynur Haraldsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Hanna María Karlsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason , Víkingur Kristjánsson, Svava Björg Örlygsdóttir og Jóhannes Níels Sigurðsson.

{mos_fb_discuss:2}