„Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu.“ Þannig hefst saga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Bókin kom út árið 1939 og er hún sú saga Gunnars sem víðast og oftast hefur verið gefin út. Hún kom fyrst út á dönsku, en síðar þýddi höfundurinn hana sjálfur á íslensku.
Hér er sagt frá svaðilförum vinnumannsins Benedikts sem fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum eftirlegukindum til byggða fyrir hátíðirnar. Söguna byggir höfundur á frásögnum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mýrdalsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925. Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi í vetrarhörkum íslenskra öræfa.
Leiksýningin Aðventa var frumsýnd árið 2008 og hefur verið sýnd víðsvegar fyrir hver jól síðan og vakið athygli.