Leikfélag Hörgdæla hefur hafið æfingar á leikritinu Með fullri reisn eftir Terrance McNally. Leikritið er þýtt af Karli Ágústi Úlfssyni og leikstýrt af Jóni Gunnari Þórðarssyni og hefur hann ásamt leikurum  staðfært verkið heim í Hörgárdalinn. Um er að ræða bændur sem sjá sér þann kost vænstan í kreppunni að drýgja tekjurnar með því að halda konukvöld þar sem fötum mun fækka. En hversu langt verður gengið? Það mun allt  koma í ljós þegar leikritið verður frumsýnt í byrjun mars að Melum í Hörgárdal.

 

Verkið telur í kring um 20 leikara ásamt fjölda fólks sem kemur að því á einn eða annann hátt. Leikfélag Hörgdæla leggur mikinn metnað í að gera góða sýningu og ætlar að gefa út dagatal þar sem umræddir bændur munu vera við hin ýmsu sveitastörf, MIS-mikið klæddir. Unnið er að gerð dagatalsins þessa dagana, fenginn var einn reyndasti ljósmyndari landsins til verka, Ragnar Th. Sigurðsson. Allt stefnir í að sýning leikfélags Hörgdæla á með fullri reisn verði í senn meinfyndin, skemmtileg og fyrir alla aldurshópa.

{mos_fb_discuss:2}