Næstkomandi laugardag, hinn 20. febrúar, frumsýnir unglingadeild Leikfélags Kópavogs nýtt íslenskt leikrit, Blóðsystur, í Leikhúsinu við Funalind 2 í Kópavogi. Hópurinn, sem skipaður er átta upprennandi leikurum, hefur æft og þjálfað af kappi frá í haust undir styrkri stjórn Guðmundar Lúðvíks Þorvaldssonar.
Verkið sem nú liggur fyrir er afrakstur þeirrar vinnu en það er orðið til í spunavinnu og höfundar því leikstjórinn Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson, aðstoðarleikstjórinn Víðir Örn Jóakimsson og unglingarnir í hópnum, en þeir heita: Agnes Engilráð Scheving, Anna Kristjana Ó. Hjaltested, Bjarni Magnús Erlendsson, Dagbjört Rós Jónsdóttir, Hanna Rún Jónasdóttir, Lovísa Þorsteinsdóttir, María Björt Ármannsdóttir og Sigrún Gyða Sveinsdóttir. Auk þeirra hafa ýmsir félagsmenn lagt hönd á plóg við gerð leikmyndar og búninga, lýsingu og annað tilfallandi.
Blóðsystur er spennandi og skemmtileg sýning en best er að hafa sem fæst orð um söguþráðinn því sjón er sögu ríkari. Þó má geta þess að þar koma fram nokkrar guðhræddar stúlkur sem ekki eru allar þar sem þær eru séðar og hinn ráðagóði Sigurður vampírubani.
Nokkrar sýningar eru fyrirhugaðar á Blóðsystrum og má sjá sýningardaga og fleira um verkið og hópinn á heimasíðu félagsins, www.kopleik.is
Næstu sýningar: Miðvikudaginn 24. febrúar og fimmtudaginn 25. febrúar. Sýningar hefjast kl. 20:00 og hægt er að panta miða í síma 554-1985 og á midasala@kopleik.is