Alþýðuskáldið Magnús Hj. Magnússon lifði engu venjulegu lífi og sjaldan var það neitt dans á rósum. Hann ritaði dagbækur frá unga aldri þar sem hann greinir nákvæmlega frá sorg og gleði í sínu lífi sem og grenir frá ýmsum viðburðum úr daglega lífinu. Strax í æsku urðu foreldrar hans að láta hann frá sér og þar með hófst þrautarganga ljósvíkingsins sem tók aldrei enda. Leikritið Ljósvíkingur – Skáldið á Þröm er byggt á dagbókunum og er 99% textans eftir Magnús Hj. Magnússon
Í verkinu hittum við fyrir skáldið sjálft, þar sem hann situr einn í klefa sínum og afplánar dóm. Á þessum umbrotstíma í lífi sínu kemur hann til dyrana eins og hann er klæddur og leiðir áhorfendur í sannleikan um líf sitt og þrautargöngu. Hann horfist í augu við sjálfan sig og gerir upp fortíð sína á einlægan hátt. Saga Magnúsar er ekki aðeins saga eins manns, heldur saga heillar stéttar í samfélagi sem er að brjóta sér leið út úr moldarkofum og inn í nútímann. Skáldsagan Heimsljós eftir Halldór Laxness er byggð á dagbókum Magnúsar.