Kómedíuleikhúsið á Ísafirði, í samvinnu við Norðurpólinn, sýnir Ljósvíkingur – Skáldið á Þröm, einlægan og átakanlegan einleik um skáldið Magnús Hj. Magnússon í Norðurpólnum, Seltjarnarnesi. Einleikurinn var sýndur vestur á fjörðum í vor og sumar við gríðarlega góðar undirtektir. Það er Ársæll Níelsson sem túlkar skáldið og Elfar Logi Hannesson leikstýrir.

Alþýðuskáldið Magnús Hj. Magnússon lifði engu venjulegu lífi og sjaldan var það neitt dans á rósum. Hann ritaði dagbækur frá unga aldri þar sem hann greinir nákvæmlega frá sorg og gleði í sínu lífi sem og grenir frá ýmsum viðburðum úr daglega lífinu. Strax í æsku urðu foreldrar hans að láta hann frá sér og þar með hófst þrautarganga ljósvíkingsins sem tók aldrei enda. Leikritið Ljósvíkingur – Skáldið á Þröm er byggt á dagbókunum og er 99% textans eftir Magnús Hj. Magnússon

Í verkinu hittum við fyrir skáldið sjálft, þar sem hann situr einn í klefa sínum og afplánar dóm. Á þessum umbrotstíma í lífi sínu kemur hann til dyrana eins og hann er klæddur og leiðir áhorfendur í sannleikan um líf sitt og þrautargöngu. Hann horfist í augu við sjálfan sig og gerir upp fortíð sína á einlægan hátt. Saga Magnúsar er ekki aðeins saga eins manns, heldur saga heillar stéttar í samfélagi sem er að brjóta sér leið út úr moldarkofum og inn í nútímann. Skáldsagan Heimsljós eftir Halldór Laxness er byggð á dagbókum Magnúsar.