Laugardaginn 23. apríl eru liðin 400 ár frá andláti merkasta leikskálds allra tíma William Shakespeare. Kómedíuleikhúsið minnist skáldsins á dánardeginum fjórum öldum síðar með frumsýningu á leikverkinu Daðrað við Sjeikspír. Sýnt verður í Hörpu Vestfjarða, í Félagsheimilinu Bolungarvík. Um er að ræða sýningu að hætti kaffileikhúsa og sitja því gestir við borð og geta jafnvel sötrað á einhverju svalandi meðan á sýningu stendur. Miðaverð er aðeins 3.900.- kr og er einn drykkur innifalinn í miðaverði. Miðasala er þegar hafin í síma 891 7025. Sýningin hefst kl.20 á laugardag 23. apríl.
Daðrað við Sjeikspír er leikur þar sem fjallað er um ævi og verk skáldjöfursins Sjeikspírs. Flutt verða brot úr fjórum af hans þekktustu verkum Hamlet, Rómeó og Júlía, Makbeð og Ótelló. Verkin eiga það eitt sameiginlegt að vestfirska skáldið Matthías Jochumsson þýddi þau öll á vort ylhýra. Leikarar eru þau Anna Sigríður Ólafsdóttir og Elfar Logi Hannesson, búninga gerir Marsibil G. Kristjánsdóttir og Víkingur Kristjánsson leikstýrir.
Rétt er að geta þess að farið verður í leikferð með Daðrað við Sjeikspír um Vestfirði. Sýnt verður á Patreksfirði föstudaginn 29. apríl, Bíldudal 30. apríl og loks á Hólmavík 1. maí.
Daðrað við Sjeikspír er 39. verkefni Kómedíuleikhússins.